Archive for ‘Svíþjóð’

13.3.2017

Einstaklingsfrelsið í Svíþjóð

Á morgun ætla ég að stýra stuttum umræðum í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar The Swedish Theory of Love á norrænu kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir í Norræna húsinu. Ég ræði þar við sænska félagsfræðinginn og heimspekinginn Åke Sandberg og Guðmund Jónsson sagnfræðing um efni myndarinnar.

Myndin sjálf hefur raunar verið frekar umdeild en hún byggir meðal annars á athyglisverðum fullyrðingum sem fram komu í bókinni Är svensken människa? frá árinu 2006. Í stuttu máli ganga höfundar bókarinnar gegn ríkjandi hugmyndum um Svíþjóð (sama orðræða oft hermd upp á Norðurlöndin) að þar sé allt bundið í klafa einhvers konar allsherjar sósíalisma þar sem enginn fær að blómstra sem einstaklingur. Þessari mynd af Svíþjóð er t.d. oft haldið fram í Bandaríkjunum þar sem fólk hefur útnefnt sjálft sig sem heimsmeistara í einstaklingsfrelsi.

Höfundar bókarinnar Är svensken människa? segja þetta engan veginn standast nánari skoðun.

read more »

29.5.2012

Loreen ekki nógu sænsk

Þjóðernisíhaldsflokkurinn Sverigedemokraterna hefur lagt töluverða vinnu í það undanfarin ár að gera hreingerningu – alla vega yfirborðshreingerningu – í sínum röðum og hreinsa út öll viðhorf sem beinlínis teljast rasísk eða jafnvel nasísk og taka upp penari stefnu og orðræðu sem þó einkennist enn af málflutningi um innflytjendur sem skaðvalda og að allt sænskt sé best.

En öðru hvoru koma þeir þó upp um sig. Það gerðu þeir t.d. fyrir fáeinum árum síðan þegar að rannsóknarblaðamaður á vegum Sænska ríkisútvarpsins dulbjó sig sem stuðningsmann flokksins og fór í reisur með flokksforystunni með falinn hljóðnema. Þar kom m.a. í ljós að Sverigedemokraterna syngja enn nasistalög þegar þeir eru á djamminu og vísur sem hæðast að morðinu á Olof Palme.

Á laugardaginn kom svo einn forystumaður Sverigedemokraterna, Björn Söder flokksritari, enn einu sinni upp um sjálfan sig. Mestöll sænska þjóðin gladdist þá yfir glæsilegri frammistöðu söngkonunnar Loreen sem rétt í því hafði unnið Júróvisjón-söngvakeppnina fyrir Svía með fáheyrðum yfirburðum.

En Björn Söder gladdist ekki. Þegar sigurinn var ljós svaraði hann athugasemd á Facebook-síðu sinni um að Svíþjóð hefði unnið keppnina með því að skrifa: ,,Svíþjóð?“

read more »

23.5.2012

Bók um Sverigedemokraterna

Það er skammt stórra högga milli hjá mér í lestri á bókum sem tengjast sænskum stjórnmálum. Ég lauk í dag lestri greinasafns um sænska þjóðernisíhaldsflokkinn Sverigedemokraterna. Hér má lesa smá færslu um þá lestrarupplifun mína.

19.5.2012

Ævisaga Olofs Palme

Ég er nýbúinn með þykka og mikla ævisögu sænska stjórnmálamannsins Olofs Palme. Ég skrifaði smá umsögn um bókina og hana má lesa hér.

16.4.2012

Fjármálatopparnir takast á

Sænsku sósíaldemókratarnir eru komnir á nokkurt flug í könnunum eftir leiðtogaskiptin, aftur orðnir stærsti flokkurinn þar, og nýi formaðurinn Stefan Löfven má því nokkuð vel við una. En vika er langur tími í pólitík og þónokkrar slíkar munu koma og fara áður en kosið verður til þings í Svíþjóð haustið 2014.

Í boltanum taka nýir þjálfarar oft með sér nýtt þjálfarateymi og það sama gera menn gjarnan í pólitík. Stefan Löfven kynnti sitt teymi til sögunnar nýlega og þar vakti mesta athygli hver skipaður var talsmaður flokksins í fjármálum. Í þá stöðu var sótt Magdalena Andersson, ríkisskattstjóri. Það verður s.s. hún sem tæki við stöðu fjármálaráðherra kæmust sænsku sósíaldemókratarnir aftur yfir útidyralyklana að Rosenbad-stjórnarheimilinu í Stokkhólmi.

Nokkuð hefur verið beðið eftir fyrsta sjónvarpseinvígi Anderssons og Anders Borg, núverandi fjármálaráðherra. Það fór fram í kvöld og má sjá hér. Það var kannski ekki sérlega rismikið og enn má sjá að nýja leiðtogateymið hjá sósíaldemókrötunum hefur ákveðið að fara varfærnislega af stað og treysta því að sígandi lukka er best.

29.3.2012

Borgin með augum hvers og eins

Sænski sjónvarpsþátturinn Uppdrag granskning byggir á rannsóknarblaðamennsku og stendur sig oft ansi vel í því hlutverki. Í gær var kastljósinu beint að Malmö í tilefni þeirra morða sem framin hafa verið í borginni á undanförnum misserum og enn festa í sessi ímyndina um borgina sem glæpaborg Svíþjóðar.

Hver sagði sína sögu. Upplifun íbúanna var allt frá því að halda því fram að ástandið væri ekki hótinu skárra en í Írak til þess að fólk tjáði sig sem var orðið þreytt á því að heyra fólk utan frá, sem aldrei kæmi til Malmö, útmála borgina sem krimmabæli þegar staðreyndin væri sú að borgin væri ósköp venjuleg borg þar sem fólk lifði sínu daglega lífi í friði og ró, líkt og alls staðar annars staðar.

Það sem kannski var athyglisverðast í þættinum var það að Malmö er alls ekkert mesta glæpaborg Svíþjóðar. Allir stóru sænsku fjölmiðlarnir í Stokkhólmi sem halda þeirri mynd á lofti ættu nefnilega frekar að líta niður í eigið húsport. Tölfræðin sem leidd var fram sýndi nefnilega að glæpaborg númer eitt í Svíþjóð er Stokkhólmur. Meira að segja með nokkrum yfirburðum.

read more »

21.3.2012

Að vera eða vera ekki í NATO

Ég ræddi það aðeins í pistli hér um daginn hversu mikill tvískinnungur það hefur lengi verið í Svíum að halda því fram að þeir séu utan hernaðarbandalaga. Þeir hafa auðvitað lengi, lengi verið ,,de facto“ í NATO.

Ég heyrði af heilmikilli stúdíu um þetta í sænskum útvarpsþætti um helgina. Þessi stúdía er komin út á bók og er tilnefnd til virtra verðlauna um bestu rannsóknarblaðamennsku síðasta árs. Bókin heitir Den dolda alliansen (ýtið á hlekkinn á bókartitlinum til að lesa ykkur nánar til um efnið) og virðist halda því fram að jafnvel enn meiri bönd hafi áratugum saman verið við NATO en almenningur hefur fengið að vita. Eiginlega hafi óháða staðan utan hernaðarbandalaga verið fullkomlega marklaus því að Bandaríkin hafi heitið fullri hernaðaríhlutun ef ráðist yrði á Svíþjóð. Svíar heyrðu, með öðrum orðum, og heyra væntanlega enn, í raun undir hinn fræga fimmta lið varnarsamnings NATO um að árás á eitt ríki jafngildi árás á þau öll.

Maður verður eiginlega að skaffa sér þessa bók (svo maður tali nú skandinavíu-skotið).

11.3.2012

,,Heimssamviskan“ í kaldhæðnu ljósi

Stundum hafa Svíar verið kallaðir á ensku ,,the moral superpower“. Sumir hafa notað það í einlægni til að lýsa aðdáun á framlagi Svía til betri og siðvæddari heims en aðrir beitt því í kaldhæðni til að benda á tvöfeldni Svía sem predika góð gildi og leggja hart að öðrum að fara eftir þeim en eru síðan sjálfir ekki allir þar sem þeir eru séðir.

Þeir sem frekar taka sér hugtakið í munn með kaldhæðnistón hafa hátt þessa dagana. Sterkustu rökin gegn ,,the moral superpower“ (,,heimssamviskunni“, kannski) hafa ávallt verið að Svíar eru einir helstu vopnasalar í heimi og það hefur þótt ríma illa við allt þeirra kærleiks- og friðartal.

Nú er nefnilega komið upp hneykslismál í Svíþjóð þar sem varnarmálaráðherrann og öll stjórnin hefur orðið uppvís að ósannindum þegar hún neitaði tilvist vopnaverksmiðju í Saudi-Arabíu sem byggð er og rekin fyrir tilstilli sænskra krafta. Vopnin þaðan hafa t.d. verið notuð til að berja niður arabíska vorið í Barein að undanförnu og í öðrum álíka misjöfnum tilgangi. Hneykslið er í raun tvöfalt – bæði tilvist vopnaverksmiðjunnar sænskuskotnu í Saudi-Arabíu og svo það að stjórnin sagði ósatt, neitaði tilvist hennar en þurfti svo að éta allt slíkt ofan í sig.

read more »

14.2.2012

Staða sósíaldemókrata

Í framhaldi af umræðum um leiðtogakrísuna í sænska sósíaldemókrataflokknum (sem kannski er búin, kannski ekki), leit fréttaskýringaþátturinn Konflikt í sænska ríkisútvarpinu yfir evrópska sviðið um síðustu helgi til að kíkja á stöðu sósíaldemókrataflokkanna hér og þar. Þátturinn er hér fyrir áhugasama.

12.2.2012

Stefan Löfven byrjar af öryggi

Sósíaldemókratarnir sænsku vonast til að hafa hoggið á þá hnúta sem þeir hafa hnýtt allt frá brotthvarfi Görans Perssons með endalausri leiðtogakrísu og tveimur formönnum sem frekar aukið vandann en hitt. Á það sérstaklega um  þann síðari, Håkan Juholt.

Juholt virtist að lokum hafa verið stillt upp með tvo valkosti af innsta valdakjarna flokksins: að segja sjálfur af sér eða vera steypt af stóli. Hann valdi fyrri kostinn.

Nú vonast sem sagt sænsku kratarnir til að nýi formaðurinn, Stefan Löfven, sé þessi sem veldur hnútahögginu langþráða hjá landsföðurlega flokknum sem hefur á eyðimerkurgöngu undanfarinna ára verið langt frá því að vera sá burðarbiti í sænskum stjórnmálum sem hann eitt sinn var.

Löfven kemur úr launþegahreyfingunni, hefur verið í forystu IF Metall, heildarsamtaka ýmissa iðnfélaga (systurfélag Samiðnar á Íslandi) og hefur starfað í innsta hring sænska sósíaldemókrataflokksins um nokkurt skeið. Þannig að þó hann hafi ekki komið fram sem réttur og sléttur stjórnmálamaður fyrr, þá hafa störf hans um langt skeið verið af pólitískum toga og klárlega innan hinna stóru sósíaldemókratísku hreyfingar.

Ýmsir hafa haldið að hér sé um enn eina lélegu bráðabirgðareddinguna að ræða á leiðtogakrísu sósíaldemókratanna en raunar er of snemmt að segja til um það nú. Efasemdarröddum um gildi Löfvens sem leiðtoga hefur verið svarað af þeim sem til dæmis benda á að hvorki Ingvar Carlsson né Göran Persson þóttu hafa styrka stöðu eða mikla útgeislun sem leiðtogar þegar þeir tóku við keflinu á sínum tíma. Urðu þó báðir farsælir leiðtogar til margra ára.

Þeir sem trúa á Löfven telja að hann sé rétti maðurinn til að takast á við það sem flesta skiptir mestu máli, sérstaklega á þessum tímum: atvinnu.

Það verður að segjast eins og er að þarna hefur Löfven virkað sterkur í upphafi og maður veltir því fyrir sér hvort efasemdir um umdeilda afstöðu hans í ýmsum öðrum málaflokkum komi til með að breyta svo miklu. Líklegt er að á krepputímum vilji fólk fyrst og fremst vita hvernig leiðtogi gamla landsföðurflokksins ætlar að redda atvinnumálunum. Það er gömul saga og ný.

Löfven kom fram í fyrsta ítarlega viðtalinu sínu á SVT í kvöld og hann komst fremur vel frá því. Honum tókst þar enn að leggja áherslu á þennan styrk sinn, m.a. í ljósi bakgrunns síns úr launþegahreyfingunni, og stimpla sig enn frekar inn sem maður með klassíska sýn á sósíaldemókratismann. Kannski jafnvel að einhverju leyti með vísan til þess tíma þegar samasemmerki var nánast á milli breiðs hóps verkalýðs og opinberra starfsmanna og kjósenda sósíaldemókrataflokksins. Seinni tíma áhersluatriði, eins og umhverfismál, jafnréttismál og innflytjendamál, voru alla vega minna til umræðu, raunar lítið sem ekkert á þau minnst. Allt snerist um atvinnu, efnahag, framleiðni. Gamli frasinn úr herbúðum Bill Clintons, ,,It’s the economy, stupid“ átti vel við.

Löfven nýtur auðvitað enn þá hveitibrauðsdaganna sinna. Hann getur enn vísað til þess að hann sé nýtekinn við embætti. Þess vegna komst hann upp með að svara mörgum spurningum með því að segja að verið væri að skoða þetta og hitt, meta eitt og annað og að þessi eða hinn samráðshópurinn innan flokksins myndi skila niðurstöðu um eitthvað innan skamms. Þessi svör munu hins vegar ekki duga lengi. Það eru kosningar haustið 2014 og sá tími er fljótur að líða þegar að leggja þarf línur til sigurs, sérstaklega í þeirri stöðu sem sænsku kratarnir eru í núna. Hveitibrauðsdagarnir verða því naumt skammtaðir, bæði á verkefnaáætlun flokksins og meðal kjósenda.

Málmiðnaðarforinginn þarf því að vinna hratt og vel. Fyrir sænsku sósíaldemókratana getur það hreinlega verið tilvistarspursmál, út frá því að endurheimta stöðu sína sem burðarbiti í sænskum stjórnmálum eða á hinn bóginn glata henni fyrir fullt og allt.