Archive for ‘Norðurlönd’

28.8.2011

Analys Norden

Íslenskt áhugafólk um alþjóðastjórnmál grípur oftast svo til í tómt þegar kemur að góðri umfjöllun á íslensku um þennan málaflokk. Þó er ekki víst að allir átti sig á því að til eru lítið þekkt skúmaskot þar sem lúmskt góð umfjöllun fer fram á íslensku um þennan málaflokk.

Til dæmis má benda á vefritið Analys Norden sem kemur reglulega út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar er skrifað um samtímaþjóðmál á Norðurlöndunum og skrifin annast óháðir blaðamenn, einn frá hverju Norðurlandanna, hver um þema hvers heftis út frá sínu landi. Blaðamennirnir fá algjörlega frjálsar hendur við skrif sín og tjá því einungis eigin skoðanir. Þetta er því fjarri því að vera eitthvert áróðursrit Norrænu ráðherranefndarinnar.

Þarna eru oft fantagóðar og oft nokkuð djúpar úttektir á ýmsum málaflokkum hjá hverju og einu landanna.

Og það sem ekki skiptir litlu máli, þetta er allt þýtt yfir á íslensku.

– – –

Og fyrst maður er nú byrjaður að linka, þá er hér grein af Smugunni eftir Örn Ólafsson um dönsku kosningarnar framundan. Ég er ekki sammála hans mati um nándar nærri allt en þetta er samt ágætis yfirferð hjá honum.