Archive for ‘Danmörk’

7.3.2017

Nýr ,,brómans“ í danskri pólitík

Það hefur stundum verið talað um Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem ,,den store politiske håndværker“ í dönskum stjórnmálum. Hann sé eins og góður iðnaðarmaður sem getur gert upp hvaða hripleka kofa sem er og baksað saman flóknustu hlutum svo þeir líta út sléttir og felldir að verki loknu. Hann gefur lítið út á ,,pólitískan ómöguleika“ svo vitnað sé í starfsbróður hans í öðru landi.

Frá sumarkosningunum 2015, þar sem hann komst aftur til valda sem forsætisráðherra, hefur þó reynt einkar mikið á hinn pólitísk handlagna Lars. Þingmeirihlutinn sem stóð að baki ríkisstjórn hans gat vart staðið tæpar og ofan á það bættist að enginn flokkanna sem mynda hægri blokkina í dönskum stjórnmálum vildi fara í ríkisstjórn með Venstre, flokki Lars Løkke. Konservative, danski Íhaldsflokkurinn, náði ekki nema rétt rúmlega pilsnerfylgi og hafði ekki sjálfstraust í stjórnarsetu. Frjálshyggjuflokkurinn Liberal Alliance mat það svo að stjórnarseta yrði til þess að útvatna stefnu flokksins í alls konar málamiðlunum og óvinsælum ákvörðunum og sömu sögu má segja um stærsta hægri flokk Danmerkur, Dansk Folkeparti.

Eftir stóð því Lars Løkke og flokkur hans Venstre og niðurstaðan varð minnihlutastjórn þeirra einna með stuðningi hinna flokkanna þriggja.

read more »

15.10.2012

Hallarbylting í SF

Stundum fara hlutirnir ekki eftir áætlun í pólitík. Það hefur Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur og fráfarandi formaður sósíalistaflokksins SF, mátt reyna að undanförnu.

Fyrir fáeinum vikum kom hann nokkuð mörgum landsmönnum sínum á óvart þegar að hann tilkynnti að hyggðist hætta sem formaður SF. Þegar ég segi að hann hafi komið ,,nokkuð mörgum“ landsmönnum sínum á óvart, þá er það vegna þess að um nokkurt skeið hafði því verið spáð að fararsnið væri á Villy Søvndal. Allflestir héldu hins vegar að hann myndi halda út í fáein misseri enn og þá kannski hætta einhvern tíma á næsta ári þegar að kjörtímabilið væri um það bil hálfnað.

Þegar ákvörðunin var tekin voru spekingar í danskri pólitík hins vegar ekki í nokkrum vafa um það að nú færi í gang vel hönnuð atburðarás. Hún yrði eftirfarandi:

Villy Søvndal lýsir ekki yfir stuðningi við neinn eftirmann sinn en segist vilja láta flokksmenn sjálfa um að ráða fram úr því. Annað sé óviðeigandi. Bak við tjöldin sé hans hópur hins vegar búinn að makka og það þá með töluverðu forskoti á hugsanlega frambjóðendur annarra afla innan flokksins. Einhver úr hinu svokallaða ,,børnebanden“ sem fylgir Søvndal eins og skugginn innanflokks muni bjóða sig fram. Viðkomandi fær tryggðan svo staðfastan stuðning frá lykilöflum innan flokksins að fulltrúar þeirra afla sem vilja færa flokkinn í aðra átt eða hafa verið gagnrýnin á flokksforystu Villys Søvndal munu átta sig á því að slagur við vel smurða maskínu flokkselítunnar er fyrirfram tapaður. Þess vegna mun enginn alvöru kandídat bjóða sig fram gegn krónprinsessu/prinsi fráfarandi formanns.

Nema jú, ef til vill væri hentugt að eitthvað nógu hættulaust nóboddí innanflokks byði sig fram til þess að kandídat Villys Søvndal geti unnið með nánast rússneskri kosningu, vísað eftir það í umboð flokksmanna en um leið haldið því fram að fram hafi farið opið og lýðrðislegt formannskjör innan SF þar sem allir sátu við sama borð.

read more »

19.8.2012

Umræður í fjölmenningarsamfélagi

Í Danmörku hefur verið í gangi umræða sem sumir vilja skrifa á gúrkutíð en öðrum finnst tengjast grundvallarmálum sem koma persónulega við markverðan hóp landsmanna. Um tvö aðskild mál er að ræða.

Fyrra málið geisaði í dönskum fjölmiðlum í júlí og enn eimir raunar eftir af þeirri umræðu. Hún á reyndar kannski eftir að fá vind í seglin á ný eftir að danska þingið kemur saman og tekur málið hugsanlega á dagskrá. Það tengist umskurði drengja sem tíðkast bæði í Gyðingdómi og Íslam og er reyndar víðar til siðs. Fram komu raddir sem vildu vekja upp umræðu á því að það væri siðferðislega rangt að gera aðgerð á karlkyns kornabörnum í nafni trúarbragða sem einstaklingurinn sem fyrir aðgerðinni verður velur ekki að láta gera sjálfur. Þarna er auðvitað komið inn á grundvallarágreining um trúfrelsi einstaklingsins gagnvart viðhaldi trúarlegra og menningarlegra siða. Inn í þá umræðu voru m.a. leiddar rannsóknir sem sýndu fram á að umskurðir geti haft hættu í för með sér og kunni að m.a. leiða til vandamála í kynlífi einstaklingsins síðar á ævinni. Aðrir komu þá fram sem drógu gildi slíkra rannsókna í efa og þótti málið allt vera hinar mestu nornaveiðar. Þeir sem lengst gengu jöfnuðu umræðuna jafnvel við ofsóknir á Gyðingum í Þriðja ríkinu.

Engin niðurstaða er sem sagt komin í málið en ýmsir þingmenn töldu í sumar að vert væri að taka málið upp þegar þing kemur saman á ný og hugleiða jafnvel bann við umskurði drengja. Það verður spennandi að sjá hvort að málinu verður haldið vakandi eða hvort það mun víkja af þingdagskránni sem gúrkufrétt frá liðnu sumri. Vandi er um slíkt að spá á þessu stigi.

read more »

11.4.2012

SF bara fyrir karla í vinnugöllum?

Það er ekki alveg út í loftið að halda því fram að það versta sem hent getur vinstri-sósíalíska flokka er að komast til áhrifa í ríkisstjórn.  Kannski heldur sú fullyrðing heldur ekki alveg en hún á þó alla vega við bæði heimilislífið innan Vinstri grænna á Íslandi og Sosialistisk Folkeparti (SF) í Danmörku og raunar mætti tína fleiri dæmi til.

Vandi VG á Íslandi er klassískur vandi flokka sem byggja á sterkri hugmyndafræði sem reynist síðan erfitt að hleypa í fulla framkvæmd í samvinnu við aðra og við það myndast eins konar ,,raunhyggjuarmur“ sem reynir þá að spila kalt út frá stöðunni og svo ,,hugsjónaarmurinn“ sem lítur á öll frávik frá hugsjónum flokksins sem svik.

SF í Danmörku stendur þó frammi fyrir dálítið öðrum vanda, þó hann sé vissulega svipaðs eðlis. SF undir forystu Villys Søvndals er einfaldlega sakaður um að hafa gjörsamlega horfið í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann tekur þátt í. Flokkurinn hafi varla komið nokkrum stefnumálum sínum í gegn og ekki sé að sjá á verkum utanríkisráðherrans Villy Søvndal að hann sé sammála stefnu formanns SF, Villys Søvndals, að nokkru leyti. Alltaf komi síðan forysta SF fram eftir að hafa bakkað með allt sitt og reyni að presentera framlag sitt til sameiginlegrar niðurstöðu sem annað hvort sigur eða alla vega varnarsigur.

Fylgið hefur hrunið af SF og formaðurinn Villy Søvndal, sem áður feykti flokk sínum í hæstu hæðir í skoðanakönnunum með eigin leiðtogahæfni (þá var talað um ,,Søvndal-effekten“) þykir nú jafnvel orðinn dragbítur á flokknum.

Um næstu helgi verður landsfundur flokksins haldinn og slæm staða flokksins hefur kallað á mikinn titring fyrir þann fund. Ekki er talið að formaðurinn sjálfur sé í fallhættu en þó er farið að tala um að það sé spurning um hvenær, en ekki hvort, hann þarf að stíga til hliðar.

Barátta fylkinganna með og gegn formanninum mun frekar birtast í varaformannskosningunni.

read more »

18.3.2012

Skáldskapur og raunveruleiki í Borgen

Um fátt var meira rætt á dönskum kaffistofum haustið 2010 en fyrsta kvenkyns forsætisráðherra landsins, hnarreista og ákveðna konu sem stóð í stafni nýrrar mið-vinstri ríkisstjórnar og tók við af áralangri hægri stjórn karla í gráum jakkafötum.

Hún náði, eftir nokkurn barning, að sameina að baki sér fremur ósamlyndan hóp sem spannaði litrófið frá borgaralegum miðjumönnum til róttæks fólks allra yst á vinstri vængnum. Hveitibrauðsdagarnir voru fáir ef þá nokkrir, rýtingsstungur í bakið urðu daglegt brauð og blákaldur pólitískur veruleikinn leiddi fljótt til þess að nýi forsætisráðherrann og stjórn hennar urðu að leggja alla fallega hugmyndafræði og framtíðarsýn til hliðar. Við tóku hnífskarpar ákvarðanir sem gengu þvert gegn þeim ófrávíkjanlegu loforðum af veggspjöldum sem jafnvel hengu enn uppi hér og þar um stræti og torg úr nýliðinni kosningabaráttu.

Einhverjir lesendur halda sjálfsagt að þeir hafi hingað til verið að lesa fréttaskýringu um dönsk samtímastjórnmál. Það hafa þeir líka í raun verið að gera. Það eina sem ekki passar fullkomlega við rauveruleikann er ártalið. Það á að vera 2011 en ekki 2010.

Forsætisráðherrann heitir reyndar ekki heldur Helle Thorning-Schmidt, hún heitir Birgitte Nyborg. Og svo er sú fyrrnefnda af holdi og blóði og tók við haustið 2011 en hin síðarnefnda er aðalpersónan í sjónvarpsþáttaröðinni Borgen sem fór í loftið hjá Danska ríkissjónvarpinu haustið 2010 og áhorfendur RÚV fylgjast spenntir með þessi sunnudagskvöldin.

read more »

4.3.2012

Vandamálið sem gufaði upp

Um helgina var í danska dagblaðinu Politiken vakin athygli á málefni vegna þess að það vekur ekki lengur athygli sem málefni í Danmörku.

Og hér verður vakin athygli á því að það málefni vekur ekki lengur athygli sem málefni.

Þetta er innflytjenda- og múslimaumræðan sem hertók allan fyrsta áratug þessarar aldar, um allan hinn vestræna heim raunar, en sérstaklega á ákveðnum svæðum og löndum, t.d. Danmörku.

Varla var gefið út það dagblað eða efnt til umræðuþáttar án þess að einhvers staðar kæmu fyrir hatrammar umræður um grundvallarspurningar á borð við þessar: Eru múslimar mjög vont fólk eða bara vont? Eru allir múslimar terróristar eða bara flestir? Er ljóst hvenær, ekki hvort, Islam mun taka yfir vestræn lýðræðissamfélög og færa þau aftur til myrkra miðalda? Mun sólin yfirleitt rísa á himni á morgun ef að danskar stofnanir verða að hætta að sörvera svínakjöt til þeirra sem neita að setja það inn fyrir sínar varir?

read more »

26.2.2012

Sagan um hringinn

Það er óhætt að segja að miðvinstri-stjórn Helle Thorning-Schmidt hafi ekki fengið neitt fljúgandi start fyrsta vetur sinn. Fylgi við hana hefur mælst lítið og hvert vandræðamálið hefur rekið annað. Tólfunum kastaði þó fyrst í upphafi nýliðinnar viku þegar að eitt helsta vandræðabarna stjórnarinnar, umferðargjaldhringur umhverfis miðborg Kaupmannahafnar, endaði í einni alls herjar uppgjöf.

Gjaldhringurinn hefur verið inni í verkefnaáætlun Sósíaldemókratanna og Sosialistisk Folkeparti alveg frá því að flokkarnir sneru saman bökum 2009 og kynntu sameiginlega framtíðarsýn sína sem kosningabandalag. Hann byggir á svipuðum lausnum og í borgum eins og Stokkhólmi og London þar sem hann hefur verið settur upp sem tollur á umferð bíla til að minnka umferðarhnúta, mengun og styrkja almenningssamgöngur og þar með hvetja fólk til umhverfisvænni fararmáta.

Gjaldhringurinn var frá fyrstu tíð mjög umdeild hugmynd í Danmörku, sérstaklega meðal íbúa utan hans sem þurfa daglega að sækja vinnu eða eiga önnur regluleg erindi inn í miðbæ Kaupmannahafnar, innan hringsins. Þegar að vinstri flokkarnir og Radikale Venstre náðu meirihluta og mynduðu þriggja flokka stjórn með stuðningi Enhedslisten þá var gjaldhringurinn eitt þeirra mála sem sett var á oddinn og Helle Thorning-Schmidt nefndi hann sérstaklega sem mál sem hún lofaði að staðið yrði fullkomlega við.

read more »

19.2.2012

Menntafólkið á kassann í Netto

Mette Frederiksen, atvinnumálaráðherra í dönsku vinstri stjórninni, er einn hinna upprennandi sósíaldemókrata sem margir hafa spáð miklum frama.

Hún stýrir nú vandasömum málaflokki á krepputímum og þarf að standa frammi fyrir því, mörgum öðrum fremur, að svara þeirri spurningu hvernig megi bregðast við atvinnuleysi í Danmörku á krepputímum.

Það er flestum ljóst að það er ekki auðveld barátta og krefst sjálfsagt flókinna og margbrotinna aðgerða sem ekkert er svo víst að skili árangri á endanum. Vandamálið er stórt og hefur lengi verið – ekki bara í Danmörku heldur víða í Evrópu.

Þess vegna urðu margir sem vinna í þessum málaflokki ekki lítið ,,skúffaðir“ (svo maður noti nú dönskuslettu) þegar að ráðherrann lét það frá sér fara nú fyrir helgi að atvinnulaust menntafólk ætti líka að sækja um vinnu í Netto (sambærilegri verslunarkeðju og Bónus á Íslandi). Hún var með öðrum orðum að segja að menntafólk ætti ekki að vera of fínt til þess að gera allt til að fá vinnu, sækja um alls staðar, líka í Netto.

Það er reyndar vansagt að margir hafi orðið ,,skúffaðir“ yfir þessum ummælum. Fólk varð alveg brjálað. Sérstaklega það unga menntafólk og forsvarar þeirra sem fannst gróflega verið talað niður til sín og að ráðherrann væri þarna að beita ódýru bragði, vitandi það mætavel að hún væri ekki að ráðast að raunverulegu vandamáli, heldur skora pólitísk stig, þykjast vera hörkunagli til að ganga í augun á hópi kjósenda sem finnst of mikil linkind ríkja gagnvart atvinnulausum og bótaþegum.

Með öðrum orðum: Mette Frederiksen beitti popúlisma.

read more »

21.10.2011

Konan með handtöskuna

Marianne Jelved er um margt merkilegur pólitíkus.* Við fyrstu sýn virðist hún ekki mikil á að líta, fremur smávaxin og samanherpt, kennslukonuleg eldri kona sem kemur sínu til skila á hæglátan hátt og fylgir meiningu sinni eftir með mildu brosi. En þessi fyrstu viðkynni segja ekki margt. Marianne Jelved er nefnilega einhver öflugasti pólitíkus Dana undanfarna tvo áratugi, kona sem lætur engan vaða yfir sig, stendur fastar en bjarg á sínu og hræðist ekki öflugan mótvind. Frægt er viðurnefni hennar sem ,,konan með handtöskuna“ og vísaði það til handtösku hennar sem hún notaði ekki aðeins til að bera hluti í heldur líka til þess að sveifla af krafti og nota þannig sem tól til að smala fólki að sinni skoðun (þó einungis í formi myndlíkingar, hafi einhver haldið annað).

Marianne Jelved var leiðtogi Radikale Venstre í heil 17 ár, þessa miðflokks í dönskum stjórnmálum sem hefur ýmist unnið með hægri og vinstri stjórnum gegnum tíðina og þar með verið í lykilhlutverki í danskri stjórnmálasögu, ekki ólíkt Framsóknarflokknum á Íslandi, þó að taka verði fram að eðli og uppruni þessara tveggja flokka er um margt, og raunar flest, mjög ólíkur.

read more »

2.10.2011

Ný ríkisstjórn

Ríkisstjórnin og stefnuplagg hennar verða formlega kynnt á morgun en margt er samt farið að leka út, bæði um hverjir sitja í stjórninni og hvað hún hyggst fyrir. Lesið meira hér, til dæmis.