Einstaklingsfrelsið í Svíþjóð

Á morgun ætla ég að stýra stuttum umræðum í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar The Swedish Theory of Love á norrænu kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir í Norræna húsinu. Ég ræði þar við sænska félagsfræðinginn og heimspekinginn Åke Sandberg og Guðmund Jónsson sagnfræðing um efni myndarinnar.

Myndin sjálf hefur raunar verið frekar umdeild en hún byggir meðal annars á athyglisverðum fullyrðingum sem fram komu í bókinni Är svensken människa? frá árinu 2006. Í stuttu máli ganga höfundar bókarinnar gegn ríkjandi hugmyndum um Svíþjóð (sama orðræða oft hermd upp á Norðurlöndin) að þar sé allt bundið í klafa einhvers konar allsherjar sósíalisma þar sem enginn fær að blómstra sem einstaklingur. Þessari mynd af Svíþjóð er t.d. oft haldið fram í Bandaríkjunum þar sem fólk hefur útnefnt sjálft sig sem heimsmeistara í einstaklingsfrelsi.

Höfundar bókarinnar Är svensken människa? segja þetta engan veginn standast nánari skoðun.

Fresli einstaklingsins sé, þvert á móti, kannski hvergi betur tryggt en í löndum eins og Svíþjóð. Velferðarkerfið geri það einmitt að verkum að fólk geti staðið eitt og óstutt og gert það sem það vill. Það geti treyst á kerfið í stað þess að stóla á dyntótta vandamenn, vini eða aðra í sínu nærsamfélagi. Að baki þessu hvílir svo nauðsynlegt traust borgaranna gagnvart yfirvöldum, svo mikið að borgararnir eru tilbúnir til þess að borga hæstu skatta í heimi og treysta hinu opinbera fyrir því verkefni að tryggja þá á móti að hver borgari geti treyst á kerfið í stað þess að þurfa að leita t.d. til sinna nánustu.

Í heimildarmyndinni eru sýndar það sem leikstjóranum þykja vera neikvæðar hliðar þessa veruleika, s.s. einsemd og að fólk missi hæfileikann til mannlegra samskipta. Mér þykir myndin sem leikstjórinn dregur upp, satt að segja, ansi skrumskæld. Ég kannast ekki við alla þessa einsemd og firringu sem þetta fyrirkomulag á að leiða af sér en það breytir því ekki að The Swedish Theory of Love er allrar athygli verð og ég á von á líflegum umræðum í kjölfar sýningarinnar.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: