Nýr ,,brómans“ í danskri pólitík

Það hefur stundum verið talað um Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem ,,den store politiske håndværker“ í dönskum stjórnmálum. Hann sé eins og góður iðnaðarmaður sem getur gert upp hvaða hripleka kofa sem er og baksað saman flóknustu hlutum svo þeir líta út sléttir og felldir að verki loknu. Hann gefur lítið út á ,,pólitískan ómöguleika“ svo vitnað sé í starfsbróður hans í öðru landi.

Frá sumarkosningunum 2015, þar sem hann komst aftur til valda sem forsætisráðherra, hefur þó reynt einkar mikið á hinn pólitísk handlagna Lars. Þingmeirihlutinn sem stóð að baki ríkisstjórn hans gat vart staðið tæpar og ofan á það bættist að enginn flokkanna sem mynda hægri blokkina í dönskum stjórnmálum vildi fara í ríkisstjórn með Venstre, flokki Lars Løkke. Konservative, danski Íhaldsflokkurinn, náði ekki nema rétt rúmlega pilsnerfylgi og hafði ekki sjálfstraust í stjórnarsetu. Frjálshyggjuflokkurinn Liberal Alliance mat það svo að stjórnarseta yrði til þess að útvatna stefnu flokksins í alls konar málamiðlunum og óvinsælum ákvörðunum og sömu sögu má segja um stærsta hægri flokk Danmerkur, Dansk Folkeparti.

Eftir stóð því Lars Løkke og flokkur hans Venstre og niðurstaðan varð minnihlutastjórn þeirra einna með stuðningi hinna flokkanna þriggja.

Völt Venstre-stjórn og varnarsigur

Á ýmsu gekk þó frá byrjun og fljótt kom í ljós að Lars Løkke var ekki sami ,,politiske håndværker“ og hann hafði áður verið talinn. Stuðningsflokkarnir á hægri vængnum reyndust ekki eins hollir ríkisstjórninni og hann hafði vonað. Tveir ráðherrar þurftu að taka pokann sinn, þar af annar fyrir tilstilli Íhaldsflokksins sem mjög ýtti á afsögn hans. Við bættist að því er virtist ófrávíkjanleg krafa Liberal Alliance um að hátekjuskattur yrði lækkaður um ákveðið hlutfall og yrði það ekki gert myndi stjórnin falla.

Stóri fíllinn í herberginu hefur síðan alltaf verið Dansk Folkeparti sem hvenær sem er getur kippt fótunum undan öllu því sem stjórnin hyggst fyrir en fólk þar á bæ hefur vægast sagt verið lítt hrifið af frjálshyggjutilburðum Liberal Alliance og við bætist gamalgróið gagnkvæmt óþol milli Dansk Folkeparti og ákveðinna arma innan Venstre og Konservative.

Lars Løkke virtist hins vegar hafa unnið ákveðinn varnarsigur nú í árslok þegar að hann myndaði nýja ríkisstjórn, nú með meðlimi Liberal Alliance og Konservative í ráðherraliði auk síns eigin fólks. Kannski með gömlu Lyndon B. Johnson-tilvitnunina í huga um betra sé að hafa þá inni í tjaldinu og láta þá pissa út heldur en öfugt.

Þetta hefur síðan reynst enn einn skammgóði vermirinn. Skærur, bæði undir niðri og á yfirborðinu, hafa haldið áfram og hafa þingmenn Dansk Folkeparti þar verið einna duglegastir að hnýta í ráðherra Liberal Alliance.

,,Brómans“ sósíaldemókratanna og Dansk Folkeparti

Vandi Lars Løkke varð síðan enn meiri þegar að Mette Frederiksen, formaður danska sósíaldemókrataflokksins, og Kristian Thulesen Dahl, formaður Dansk Folkeparti, komu saman fram í viðtali um daginn við málgagn 3F (Starfsgreinasambands Danmerkur) og voru nánast eins og unglingar sem segjast kannski vera að byrja saman.

Pólitískt tilhugalíf milli Sósíaldemókratanna og Dansk Folkeparti kemur reyndar fáum á óvart sem fylgjast með dönskum stjórnmálum en formannstíð Mette Frederiksen hjá dönsku jafnaðarmönnunum hefur einkennst af því að reyna að ná aftur til hins (kannski ímyndaða) klassíska sósíaldemókratíska kjósanda eftir að Helle Thorning-Schmidt og hennar alþjóðavædda þotulið (svo vitnað sé í andstæðinga hennar) hvarf á braut í kjölfar ósigursins í þingkosningunum 2015.

Sósíaldemókratarnir segja ekki lengur eins og annar fyrrum formaður þeirra, Poul Nyrup Rasmussen, um Dansk Folkeparti: ,,Stofuhæfir verðið þið aldrei!“. Sá tími er löngu liðinn og danskir jafnaðarmenn verða jafnkindarlegir í dag þegar þetta er borið upp á þá og maður sem á að svara fyrir galgopaleg ummæli sín á fjórtánda glasi kvöldið áður.

Mette Frederiksen er aldrei nema nokkrum skrefum á eftir Dansk Folkeparti í viðhorfum um æ harðari stefnu gagnvart innflytjendum í Danmörku og hún og Kristian Thulesen Dahl hafa einnig átt samleið í ýmsum velferðarmálum þar sem þau leggja áherslu á andstöðu sína við niðurskurð og samfélagslega misskiptingu og beina þar með enn einu sinni spjótum sínum að frjálshyggjuöflunum á danska hægri vængnum.

Løkke áfram sjeikí – kosningar í ár?

Bara tilvera þessa mögulega nýja áss í dönskum stjórnmálum hlýtur að valda Lars Løkke Rasmussen svefnlausum nóttum og raunar hefur S-DF-bandalagið þegar sýnt hægri stjórninni að það getur ráðið því sem það vill og velt stjórnarmeirihlutanum í hvaða máli sem er. Nýlegt dæmi er staðsetning nýs lögregluskóla sem Venstre var búið að lofa til Herning út frá lítt dulinni hreppapólitík en það vildu Dansk Folkeparti og Sósíaldemókratarnir ekki. Þau vildu hann til Vejle og þangað fer hann. Eftir sitja gramir sveitastjórnarmenn Venstre í Herning sem kunna Lars Løkke litlar þakkir fyrir innistæðulaus loforð.

Dansk Folkeparti hefur þó ekki enn gengið svo langt að lýsa yfir stuðningi við annan mögulegan forsætisráðherra en Lars Løkke Rasmussen og ýmislegt þarf vissulega enn að gerast í danskri pólitík áður en flokkurinn skiptir yfir í vinstra liðið á þingi og kemur þar með Mette Frederiksen til valda. En hið fornkveðna um vikuna sem langan tíma í pólitík er jafngott og gilt og ávallt.

Það bendir því margt til þess að nýja ríkisstjórnin hans Lars Løkke, sem um daginn fagnaði 100 daga áfanga sínum, þurfi áfram að troða sinn marvaða og nánast að þakka fyrir hvern einasta dag sem hún fær lifað.

Hver veit nema kosið verði í ár í Danmörku og næsta áramótaræða forsætisráðherra verði flutt af Mette Frederiksen?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: