Archive for mars, 2017

13.3.2017

Einstaklingsfrelsið í Svíþjóð

Á morgun ætla ég að stýra stuttum umræðum í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar The Swedish Theory of Love á norrænu kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir í Norræna húsinu. Ég ræði þar við sænska félagsfræðinginn og heimspekinginn Åke Sandberg og Guðmund Jónsson sagnfræðing um efni myndarinnar.

Myndin sjálf hefur raunar verið frekar umdeild en hún byggir meðal annars á athyglisverðum fullyrðingum sem fram komu í bókinni Är svensken människa? frá árinu 2006. Í stuttu máli ganga höfundar bókarinnar gegn ríkjandi hugmyndum um Svíþjóð (sama orðræða oft hermd upp á Norðurlöndin) að þar sé allt bundið í klafa einhvers konar allsherjar sósíalisma þar sem enginn fær að blómstra sem einstaklingur. Þessari mynd af Svíþjóð er t.d. oft haldið fram í Bandaríkjunum þar sem fólk hefur útnefnt sjálft sig sem heimsmeistara í einstaklingsfrelsi.

Höfundar bókarinnar Är svensken människa? segja þetta engan veginn standast nánari skoðun.

read more »

7.3.2017

Nýr ,,brómans“ í danskri pólitík

Það hefur stundum verið talað um Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem ,,den store politiske håndværker“ í dönskum stjórnmálum. Hann sé eins og góður iðnaðarmaður sem getur gert upp hvaða hripleka kofa sem er og baksað saman flóknustu hlutum svo þeir líta út sléttir og felldir að verki loknu. Hann gefur lítið út á ,,pólitískan ómöguleika“ svo vitnað sé í starfsbróður hans í öðru landi.

Frá sumarkosningunum 2015, þar sem hann komst aftur til valda sem forsætisráðherra, hefur þó reynt einkar mikið á hinn pólitísk handlagna Lars. Þingmeirihlutinn sem stóð að baki ríkisstjórn hans gat vart staðið tæpar og ofan á það bættist að enginn flokkanna sem mynda hægri blokkina í dönskum stjórnmálum vildi fara í ríkisstjórn með Venstre, flokki Lars Løkke. Konservative, danski Íhaldsflokkurinn, náði ekki nema rétt rúmlega pilsnerfylgi og hafði ekki sjálfstraust í stjórnarsetu. Frjálshyggjuflokkurinn Liberal Alliance mat það svo að stjórnarseta yrði til þess að útvatna stefnu flokksins í alls konar málamiðlunum og óvinsælum ákvörðunum og sömu sögu má segja um stærsta hægri flokk Danmerkur, Dansk Folkeparti.

Eftir stóð því Lars Løkke og flokkur hans Venstre og niðurstaðan varð minnihlutastjórn þeirra einna með stuðningi hinna flokkanna þriggja.

read more »