Hallarbylting í SF

Stundum fara hlutirnir ekki eftir áætlun í pólitík. Það hefur Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur og fráfarandi formaður sósíalistaflokksins SF, mátt reyna að undanförnu.

Fyrir fáeinum vikum kom hann nokkuð mörgum landsmönnum sínum á óvart þegar að hann tilkynnti að hyggðist hætta sem formaður SF. Þegar ég segi að hann hafi komið ,,nokkuð mörgum“ landsmönnum sínum á óvart, þá er það vegna þess að um nokkurt skeið hafði því verið spáð að fararsnið væri á Villy Søvndal. Allflestir héldu hins vegar að hann myndi halda út í fáein misseri enn og þá kannski hætta einhvern tíma á næsta ári þegar að kjörtímabilið væri um það bil hálfnað.

Þegar ákvörðunin var tekin voru spekingar í danskri pólitík hins vegar ekki í nokkrum vafa um það að nú færi í gang vel hönnuð atburðarás. Hún yrði eftirfarandi:

Villy Søvndal lýsir ekki yfir stuðningi við neinn eftirmann sinn en segist vilja láta flokksmenn sjálfa um að ráða fram úr því. Annað sé óviðeigandi. Bak við tjöldin sé hans hópur hins vegar búinn að makka og það þá með töluverðu forskoti á hugsanlega frambjóðendur annarra afla innan flokksins. Einhver úr hinu svokallaða ,,børnebanden“ sem fylgir Søvndal eins og skugginn innanflokks muni bjóða sig fram. Viðkomandi fær tryggðan svo staðfastan stuðning frá lykilöflum innan flokksins að fulltrúar þeirra afla sem vilja færa flokkinn í aðra átt eða hafa verið gagnrýnin á flokksforystu Villys Søvndal munu átta sig á því að slagur við vel smurða maskínu flokkselítunnar er fyrirfram tapaður. Þess vegna mun enginn alvöru kandídat bjóða sig fram gegn krónprinsessu/prinsi fráfarandi formanns.

Nema jú, ef til vill væri hentugt að eitthvað nógu hættulaust nóboddí innanflokks byði sig fram til þess að kandídat Villys Søvndal geti unnið með nánast rússneskri kosningu, vísað eftir það í umboð flokksmanna en um leið haldið því fram að fram hafi farið opið og lýðrðislegt formannskjör innan SF þar sem allir sátu við sama borð.

Áður en lengra er haldið er reyndar ástæða til að útskýra ögn viðurnefnið ,,børnebanden“ sem minnst var á hér að framan. Hér er auðviðtað um að ræða útúrsnúning á nafni Bjarnabófanna á dönsku en nafn þessa þrengsta hrings stuðningsfólks Søvndals innan flokks kemur til af því að margir þar eru bráðungir, fólk á þrítugsaldri, sem þrátt fyrir ungan aldur og litla reynslu af öðru en ungliðastörfum í SF og yfirleitt óafloknu háskólanámi í stjórnmálafræði er komið í lykilráðherraembætti í vinstri stjórninni sem nú situr í Danmörku. Tvö eru hér í aðalhlutverki: Thor Möger Pedersen skattamálaráðherra og Astrid Krag heilbrigðisráðherra.

Thor Möger Pedersen er fæddur 1985 og var því einungis 26 ára þegar hann settist í ráðherrastól þessa mikilvæga ráðuneytis í fyrra en Astrid Krag verður þrítug nú síðar í mánuðinum. Bæði eru þau hins vegar búin að taka þátt í pólitísku starfi frá unglingsárum innan SF og eru því ef til vill ekki eins blaut á bak við eyrun og aldur þeirra gefur tilefni til.

Alla vega hafa þau á undanförnum misserum verið lykilgerendur í leikjafræði Villys Søvndal sem hófst löngu fyrir kosningar í fyrra þar sem SF, sem aldrei hafði setið í ríkisstjórn, lagði á ráðin um að breyta flokknum úr eilífðar-stjórnarandstöðuflokk yfir í pragmatískan samstarfsflokk sósíaldemókratanna. Myndað var mjög þétt kosningabandalag við sósíaldemókratana 0g SF gaf eftir eða breytti afstöðu sinni í mörgum mikilvægum málaflokkum svo að sósíaldemókratarnir gætu helst hugsað sér þá í samstarfi í mið-vinstri stjórn í stað miðjuflokksins De Radikale Venstre.

Í stuttu máli heppnaðist þetta allt saman – og þó ekki.

Vinstri flokkarnir unnu vissulega kosningarnar í fyrra og náðu að mynda ríkisstjórn þar sem Helle Thorning-Schmidt settist í forsætisráðherrastólinn og Villy Søvndal í utanríkisráðherrastólinn.

Það náðist og út af fyrir sig eru flestir félagar og kjósendur SF ánægðir með það.

En gleðin er hins vegar eins tæp og lítil og hún getur orðið. SF þurfti að gefa svo mikinn afslátt af stefnu sinni, fyrst í kosningabandalagi við sósíaldemókratana og svo í stjórninni þar sem kröfur De Radikale Venstre bættust við, að margir spyrja sig hvaða stefnumálum SF er raunverulega haldið fram af forystu flokksins við ríkisstjórnarborðið? Mörgum finnst SF vera orðinn lítið annað en vinstri sinnuð deild innan sósíaldemókrataflokksins. Enhedslisten, flokkurinn yst til vinstri í danskri pólitík, hefur svo nýtt sér þetta brotthvarf SF frá stefnu sinni með því að gera sig að eina flokknum í danskri pólitík nú um stundir sem raunverulega talar fyrir sósíalískum gildum. Þess vegna vann Enhedslisten stórsigur í kosningunum í fyrra og er enn á blússandi fart.

Kosningabandalagið S og SF gerði þau skelfilegu mistök fyrir kosningar að ætla að beita þeirri taktík að frysta Radikale Venstre úti í trausti þess að miðjuflokkurinn hefði hvort sem er ekkert annað að fara og myndi því koma skríðandi til vinstri flokkanna þó hann fengi ekkert í staðinn. Radikale Venstre sneri á þessa taktík með pólitísku ipponi þegar að RV gerðu risasamning við þáverandi hægri stjórn um mikinn niðurskurð í eftirlaunakerfinu og dagpeningakerfinu. RV var eftir þetta komið í lykilstöðu við samningaborðið hjá S og SF um vinstri stjórn, það var búið að útiloka breytingar á þessum tveimur hjartans málum vinstri manna; RV var búið að díla um meirihluta með hægri flokkunum um að standa vörð um niðurskurðinn, hvað sem liði hvorum megin stjórnarmeirihlutinn lenti eftir kosningar.

S og SF geta því í raun ekkert gert til að róa bakland sitt og reyna að bregðast við óánægju vegna niðurskurðar í þessum hlutum danskrar velferðarþjónustu. Þingmeirihlutinn er einfaldlega ekki til staðar. Það má svo fylgja sögunni að hægri-kratinn Helle Thorning-Schmidt virðist, að margra mati, leika það frekar illa hversu óánægð hún er með að geta ekki undið ofan af þessum niðurskurði í dagpeninga- og eftirlaunakerfinu en það er önnur saga.

Við þessar raunir SF bætast svo önnur lykilmál sem flokkurinn gerði mikla kröfu um en nú hefur verið horfið frá. Þar er eitt mikilvægasta málið gjaldhringurinn sem koma átti um miðsvæði Kaupmannahafnar til að draga úr notkun einkabílsins og efla almenningssamgöngur og annan umhverfisvænni fararmáta og draga úr leið úr mengun. Þar með var lítið sem ekkert eftir af tilraunum flokksins til að reyna að merkja sig sem helsta málsvara umhverfisverndar í dönskum stjórnmálum. Enn og aftur eru það kannski fyrst og fremst Radikale Venstre sem stolið hafa þeim heiðri en úr þeirra röðum kemur hinn drífandi Martin Lidegaard, ráðherra loftslagsmála.

Ofan á allt þetta kemur síðan almennur pirringur innan flokks yfir því að flokknum virðist stjórnað af lítilli klíku í kringum Villy Søvndal sem þykir ansi fjarlæg bæði stefnu flokksins og hinnum almenna flokksmanni í borgum og bæjum Danmerkur. Ungur aldur ýmissa mikilvægustu fulltrúa þessa hóps hefur einnig farið í taugarnar á ýmsum, að fólk með svona litla lífs- og starfsreynslu sé komið til lykilvalda, bæði innan SF og í ríkisstjórninni.

En Villy Søvndal hélt sem sagt, þrátt fyrir þetta, að hann hefði stjórn á stöðunni fyrir nokkrum vikum.

Hópurinn hans gerði sér grein fyrir því að Thor Möger Pedersen er allt, allt of óvinsæll innanflokks til að hann ætti séns á því að sameina SF á bak við sig. Þess vegna var Astrid Krag valin.

Hópurinn hélt að það dygði að tala Idu Auken umhverfisráðherra til og tryggja að hún færi nú ekki að bjóða sig fram gegn Krag og það sem fulltrúi fyrir svokallaðan grænan hóp innan flokksins. Ida Auken lýsti eftir nokkra daga stuðningi við Krag og þá var nánast öll flokksforystan komin í lið með Astrid Krag og allt átti þetta að vera nokkuð öruggt.

Þá birtist allt í einu á sviðinu óþekkt, stuttklippt gráhærð kona frá Fjóni. Hún hét Annette Vilhelmsen, var reyndar þingmaður frá því í kosningunum árið áður en bara dæmigerður ,,backbencher“, eins og það heitir í breskri pólitík. Hún bauð sig fram gegn Astrid Krag.

Þeir sem helst sjá plott í hverju horni voru mest á því að hér væri um að ræða blöff. Søvndal-fólkið væri hér að hrinda þeim þætti áætlunar sinnar í verk þar sem gjörsamlega óraunhæfi kosturinn kemur fram og gegnir því hlutverki einu að tryggja að um tvo sé að velja í formannskosningu svo hún geti kallast lýðræðisleg í stað þess að vera einungis krýning á krónprinsessu. Úrslitin væru hins vegar álíka fyrirsjáanleg amerískri fjölbragðaglímu þar sem nákvæmlega er búið að ákveða hver vinnur hvern, hvernig og með hvaða brögðum.

En allt fór á annan veg.

Kannanir birtust með þeim sjokkerandi niðurstöðum að Annette Vilhelmsen ætti ekki bara séns í Astrid Krag, hún gæti unnið hana. Og ekki bara unnið hana, hún gæti rústað henni – svo notað sé nú orðalag úr íþróttaheiminum.

Og í fyrradag gerðist það síðan. Annette Vilhelmsen rústaði Astrid Krag í kosningum um nýjan formann SF: 2/3 á móti 1/3. Flokksforysta Søvndals var löðrunguð á báða vanga. Hvernig mátti þetta vera?

Aðalskýringarinnar er ekki að leita í því að Annette Vilhelmsen þyki skína eins og jólastjarnan á himni SF. Óbreytta fólkið í SF var fyrst og fremst að hafna Astrid Krag og plottinu hjá Søvndal-fólkinu. Það var að mótmæla óhóflegri æskudýrkun, hannaðri atburðarás sem það átti að taka þátt í, of mikilli beygju frá stefnumálum SF og of mikilli toppstýringu innan flokksins.

Vel má vera að einhverjir hafi líka kosið Annette Vilhelmsen til að færa flokkinn aftur á þann stað til vinstri á pólitíska ásnum sem hann var alltaf. Það verður þó erfitt í reynd fyrir Annette Vilhelmsen. Hún hefur þegar lýst því yfir að flokkurinn haldi vitanlega áfram í stjórn og þar er hún bundin af því sem SF hefur þegar samþykkt og eftir því sem leið á kosningabaráttuna um formannssætið varð æ ljósara að málefnalega er ekki að vænta mikils munar, alla vega ekki frá fulltrúum SF við ríkisstjórnarborðið.

Það verða þó breytingar á ráðherraskipan. Annette Vilhelmsen kemur með sitt fólk inn. Leikstjórnandinn Thor Möger Pedersen verður færður af skákborðinu og inn kemur enginn annar en Holger K. Nielsen, fyrrum formaður SF, sem margir héldu að væri smám saman á útleið úr danskri pólitík. Nýi formaðurinn sjálfur mun svo setjast í stjórn, líklega í sæti efnahagsráðherra og taka þar við Ole Sohn sem ákvað að hætta sem ráðherra núna í vikunni – áður en Vilhelmsen myndi gera honum að standa upp. Meira kemur í ljós á næstu dögum en Annette Vilhelmsen hefur ekki gefið neinum SF-ráðherra tryggingu um það að hann sitji tryggur við hrókeringar sínar.

Ekki einu sinni Villy Søvndal.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: