Archive for október, 2012

15.10.2012

Hallarbylting í SF

Stundum fara hlutirnir ekki eftir áætlun í pólitík. Það hefur Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur og fráfarandi formaður sósíalistaflokksins SF, mátt reyna að undanförnu.

Fyrir fáeinum vikum kom hann nokkuð mörgum landsmönnum sínum á óvart þegar að hann tilkynnti að hyggðist hætta sem formaður SF. Þegar ég segi að hann hafi komið ,,nokkuð mörgum“ landsmönnum sínum á óvart, þá er það vegna þess að um nokkurt skeið hafði því verið spáð að fararsnið væri á Villy Søvndal. Allflestir héldu hins vegar að hann myndi halda út í fáein misseri enn og þá kannski hætta einhvern tíma á næsta ári þegar að kjörtímabilið væri um það bil hálfnað.

Þegar ákvörðunin var tekin voru spekingar í danskri pólitík hins vegar ekki í nokkrum vafa um það að nú færi í gang vel hönnuð atburðarás. Hún yrði eftirfarandi:

Villy Søvndal lýsir ekki yfir stuðningi við neinn eftirmann sinn en segist vilja láta flokksmenn sjálfa um að ráða fram úr því. Annað sé óviðeigandi. Bak við tjöldin sé hans hópur hins vegar búinn að makka og það þá með töluverðu forskoti á hugsanlega frambjóðendur annarra afla innan flokksins. Einhver úr hinu svokallaða ,,børnebanden“ sem fylgir Søvndal eins og skugginn innanflokks muni bjóða sig fram. Viðkomandi fær tryggðan svo staðfastan stuðning frá lykilöflum innan flokksins að fulltrúar þeirra afla sem vilja færa flokkinn í aðra átt eða hafa verið gagnrýnin á flokksforystu Villys Søvndal munu átta sig á því að slagur við vel smurða maskínu flokkselítunnar er fyrirfram tapaður. Þess vegna mun enginn alvöru kandídat bjóða sig fram gegn krónprinsessu/prinsi fráfarandi formanns.

Nema jú, ef til vill væri hentugt að eitthvað nógu hættulaust nóboddí innanflokks byði sig fram til þess að kandídat Villys Søvndal geti unnið með nánast rússneskri kosningu, vísað eftir það í umboð flokksmanna en um leið haldið því fram að fram hafi farið opið og lýðrðislegt formannskjör innan SF þar sem allir sátu við sama borð.

read more »