Umræður í fjölmenningarsamfélagi

Í Danmörku hefur verið í gangi umræða sem sumir vilja skrifa á gúrkutíð en öðrum finnst tengjast grundvallarmálum sem koma persónulega við markverðan hóp landsmanna. Um tvö aðskild mál er að ræða.

Fyrra málið geisaði í dönskum fjölmiðlum í júlí og enn eimir raunar eftir af þeirri umræðu. Hún á reyndar kannski eftir að fá vind í seglin á ný eftir að danska þingið kemur saman og tekur málið hugsanlega á dagskrá. Það tengist umskurði drengja sem tíðkast bæði í Gyðingdómi og Íslam og er reyndar víðar til siðs. Fram komu raddir sem vildu vekja upp umræðu á því að það væri siðferðislega rangt að gera aðgerð á karlkyns kornabörnum í nafni trúarbragða sem einstaklingurinn sem fyrir aðgerðinni verður velur ekki að láta gera sjálfur. Þarna er auðvitað komið inn á grundvallarágreining um trúfrelsi einstaklingsins gagnvart viðhaldi trúarlegra og menningarlegra siða. Inn í þá umræðu voru m.a. leiddar rannsóknir sem sýndu fram á að umskurðir geti haft hættu í för með sér og kunni að m.a. leiða til vandamála í kynlífi einstaklingsins síðar á ævinni. Aðrir komu þá fram sem drógu gildi slíkra rannsókna í efa og þótti málið allt vera hinar mestu nornaveiðar. Þeir sem lengst gengu jöfnuðu umræðuna jafnvel við ofsóknir á Gyðingum í Þriðja ríkinu.

Engin niðurstaða er sem sagt komin í málið en ýmsir þingmenn töldu í sumar að vert væri að taka málið upp þegar þing kemur saman á ný og hugleiða jafnvel bann við umskurði drengja. Það verður spennandi að sjá hvort að málinu verður haldið vakandi eða hvort það mun víkja af þingdagskránni sem gúrkufrétt frá liðnu sumri. Vandi er um slíkt að spá á þessu stigi.

Hitt málið er af svipuðum toga – og þó kannski ekki alveg. Það varðar Eid-hátíð Múslima sem stendur yfir nú um helgina. Hún markar endalok ramödunnar og er ein helsta hátíð ársins hjá Múslimum. Eins konar jól eða páskar. Páskar kannski frekar. Danskir Múslimar fagna því þessa dagana, aðrir Danir samgleðjast með þeim, enn aðrir verða lítið við þetta varir eða kannski hreint ekki neitt en svo er auðvitað ónefndur síðasti hópurinn sem lætur það fara óendanlega í taugarnar á sér að Múslimar séu eitthvað að halda einhverja hátíð.

Fáum þarf að koma á óvart að hér er t.d. um meðlimi danska þjóðernisíhaldsflokksins Dansk Folkeparti að ræða. Fulltrúi þeirra í stjórn danska ríkisútvarpsins var t.d. ævareiður yfir því að ein útvarpsstöð ríkisins ætlaði að helga dagskrá sína Eid-hátíðarhöldunum meðan þau stæðu yfir. Hann líkti því við grandvaraleysi umheimsins þegar að nasistar fengu athugasemdalítið að fitna á sínum fjósbita á sínum tíma og verða síðar ógnvaldur allrar veraldar. Slík ummæli þóttu ekki öllum jafnsmekkleg – svo vægt sé nú til orða tekið.

Ekki þótti það heldur smekklegt þegar bíó eitt í Kaupmannahöfn varaði kvikmyndagesti sína við því, og bað afsökunar fyrirfram á því, að næstu daga yrðu Múslimar kannski með óvenju mikil læti í bíóinu, af því að þeir væru að halda þessa hátíð sína. Bíóið ákvað í leiðinni að nefna myndir á dagskránni sem Múslimar væru líklegir til að sjá þessa hátíðisdaga sína. Þetta þótti ekki sérlega gott PR-stönt, tilkynningin hvarf fljótlega og eftir það er ekki endilega víst að Múslimar hafi svo mikla lyst á því að borga sig inn og vera með læti í ákkúrat þessu bíói.

Umræðan sem skapast í báðum þessum ofannefndu tilvikum er um margt athyglisverð. Þó er hún kannski athyglisverðust fyrir þær sakir að hún sýnir að lönd eins og Danmörk eru fjölmenningarlönd þar sem takast verður á við ólík viðhorf og koma til móts við mismunandi hefðir og lífsmynstur borgaranna. Þar býr einfaldlega ólíkt fólk. Íbúarnir verða þá að öðlast meðvitund um og taka afstöðu til fleiri hluta en snúa nákvæmlega að þeim og verða fyrir vikið e.t.v. að ögn meiri heimsborgurum en áður var.

Stundum saknar maður viðlíka umræðu úr ónefndu, einsleitu eyjasamfélagi upp við heimskautsbaug þar sem enn er til nefnd sem bannar að fólk heiti of útlenskum nöfnum og þar sem ein helsta frétt nýliðinnar verslunarmannahelgi var sú að maður hefði reykt jónu á Amtmannsstíg.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: