Archive for ágúst, 2012

19.8.2012

Umræður í fjölmenningarsamfélagi

Í Danmörku hefur verið í gangi umræða sem sumir vilja skrifa á gúrkutíð en öðrum finnst tengjast grundvallarmálum sem koma persónulega við markverðan hóp landsmanna. Um tvö aðskild mál er að ræða.

Fyrra málið geisaði í dönskum fjölmiðlum í júlí og enn eimir raunar eftir af þeirri umræðu. Hún á reyndar kannski eftir að fá vind í seglin á ný eftir að danska þingið kemur saman og tekur málið hugsanlega á dagskrá. Það tengist umskurði drengja sem tíðkast bæði í Gyðingdómi og Íslam og er reyndar víðar til siðs. Fram komu raddir sem vildu vekja upp umræðu á því að það væri siðferðislega rangt að gera aðgerð á karlkyns kornabörnum í nafni trúarbragða sem einstaklingurinn sem fyrir aðgerðinni verður velur ekki að láta gera sjálfur. Þarna er auðvitað komið inn á grundvallarágreining um trúfrelsi einstaklingsins gagnvart viðhaldi trúarlegra og menningarlegra siða. Inn í þá umræðu voru m.a. leiddar rannsóknir sem sýndu fram á að umskurðir geti haft hættu í för með sér og kunni að m.a. leiða til vandamála í kynlífi einstaklingsins síðar á ævinni. Aðrir komu þá fram sem drógu gildi slíkra rannsókna í efa og þótti málið allt vera hinar mestu nornaveiðar. Þeir sem lengst gengu jöfnuðu umræðuna jafnvel við ofsóknir á Gyðingum í Þriðja ríkinu.

Engin niðurstaða er sem sagt komin í málið en ýmsir þingmenn töldu í sumar að vert væri að taka málið upp þegar þing kemur saman á ný og hugleiða jafnvel bann við umskurði drengja. Það verður spennandi að sjá hvort að málinu verður haldið vakandi eða hvort það mun víkja af þingdagskránni sem gúrkufrétt frá liðnu sumri. Vandi er um slíkt að spá á þessu stigi.

read more »