Loreen ekki nógu sænsk

Þjóðernisíhaldsflokkurinn Sverigedemokraterna hefur lagt töluverða vinnu í það undanfarin ár að gera hreingerningu – alla vega yfirborðshreingerningu – í sínum röðum og hreinsa út öll viðhorf sem beinlínis teljast rasísk eða jafnvel nasísk og taka upp penari stefnu og orðræðu sem þó einkennist enn af málflutningi um innflytjendur sem skaðvalda og að allt sænskt sé best.

En öðru hvoru koma þeir þó upp um sig. Það gerðu þeir t.d. fyrir fáeinum árum síðan þegar að rannsóknarblaðamaður á vegum Sænska ríkisútvarpsins dulbjó sig sem stuðningsmann flokksins og fór í reisur með flokksforystunni með falinn hljóðnema. Þar kom m.a. í ljós að Sverigedemokraterna syngja enn nasistalög þegar þeir eru á djamminu og vísur sem hæðast að morðinu á Olof Palme.

Á laugardaginn kom svo einn forystumaður Sverigedemokraterna, Björn Söder flokksritari, enn einu sinni upp um sjálfan sig. Mestöll sænska þjóðin gladdist þá yfir glæsilegri frammistöðu söngkonunnar Loreen sem rétt í því hafði unnið Júróvisjón-söngvakeppnina fyrir Svía með fáheyrðum yfirburðum.

En Björn Söder gladdist ekki. Þegar sigurinn var ljós svaraði hann athugasemd á Facebook-síðu sinni um að Svíþjóð hefði unnið keppnina með því að skrifa: ,,Svíþjóð?“

Engum duldist undirtónninn. Loreen er af berbísk-marokkóskum uppruna en hefur þó búið allt sitt líf í Svíþjóð. Þar að auki var mest áberandi dansarinn á sviðinu svartur á hörund. Þess vegna spurði Björn Söder: ,,Svíþjóð?“

Hann virðist hafa áttað sig fljótlega á frumhlaupi sínu því að eftir einhvern tíma bætti hann við athugasemdinni að hann hefði átt við að honum þætti slæmt að sungið hefði verið á ensku í sænsku lagi.

Þetta taka menn mátulega trúlega, t.d. í leiðara Dagens Nyheter síðan um helgina, þar sem að mörg svipuð nýleg dæmi eru rakin því til sönnunar að kannski hafi hreinsun Sverigedemokraterna á öfgafullum og rasískum viðhorfum einmitt bara verið yfirborðshreinsun sem ætluð er til að viðhalda ytri glans.

Facebook og aðrir samskiptamiðlar voru vissulega ekki til þegar að Svíar unnu keppnina síðast árið 1999, þegar Charlotte Nilsson rétt marði Selmu okkar Björnsdóttur, en hefði svo verið væri áhugavert að fletta því upp hvort að Björn Söder hafi þá efast um að sigur söngkonunnar ljóshærðu væri sænskur  …af því að sungið var á ensku. Og ætli honum hafi gegnum tíðina ekki þótt ABBA vera sænsk hljómsveit vegna þess að hún gerði flestalla sína slagara heimsfræga á ensku? Margir leyfa sér að efast um það.

Þetta verður enn áhugaverðara þegar að rýnt er í sögu Björns Söder. Hann kemur víða við í bók sem ég hef nýlokið við um Sverigedemokraterna. Þar segir m.a. frá því að hann hafi sem héraðsþingmaður á Skáni viljað vinna gegn ,,óvelkomnum afbrigðum skánskunnar í formi arabísks og serbókróatísks hreims“. Hann lagði s.s. til stjórn á því hvernig hreim fólk hefði á skánskunni sinni!

Íslenskir útrýmendur flámælginnar hefðu átt að ráða manninn í vinnu á sínum tíma.

Háttsettir fulltrúar Sverigedemokraterna hafa raunar áður opinberað svipaðar skoðanir um aðra sem unnið hafa stóra sigra fyrir Svíþjóð. Þannig hefur Zlatan Ibrahimovic, skærasta fótboltastjarna Svía, oft fengið að heyra það frá Sverigedemokraterna að þeir líti ekki svo á að hann eigi að vera í sænska landsliðinu þar sem hann sé ekki sænskur, vegna þess að tungutak hans og líkamsburðir séu ekki sænskir. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að kalla Zlatan ,,leiguliða“ í sænska landsliðinu. Það skal svo ósagt látið hvernig nákvæmlega ,,sænskir líkamsburðir“ á fótboltavellinum líta út.

Eitt er alla vega ljóst: Svíar væru mörgu alþjóðlega afrekinu fátækari ef afrekssveit þeirra væri valin eftir skilgreiningum Sverigedemokraterna um það hvað sænskur fótboltamaður þarf að uppfylla í erkisænsku líkamsburðaprófi þeirra til að fá stöðu á vellinum og tónlistarmati á því hvaða hljóðfæraskipan, textaval og danshreyfingar eru nógu sænskar til að óhætt sé að senda lag af stað í Júróvisjón-keppnina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: