Fjármálatopparnir takast á

Sænsku sósíaldemókratarnir eru komnir á nokkurt flug í könnunum eftir leiðtogaskiptin, aftur orðnir stærsti flokkurinn þar, og nýi formaðurinn Stefan Löfven má því nokkuð vel við una. En vika er langur tími í pólitík og þónokkrar slíkar munu koma og fara áður en kosið verður til þings í Svíþjóð haustið 2014.

Í boltanum taka nýir þjálfarar oft með sér nýtt þjálfarateymi og það sama gera menn gjarnan í pólitík. Stefan Löfven kynnti sitt teymi til sögunnar nýlega og þar vakti mesta athygli hver skipaður var talsmaður flokksins í fjármálum. Í þá stöðu var sótt Magdalena Andersson, ríkisskattstjóri. Það verður s.s. hún sem tæki við stöðu fjármálaráðherra kæmust sænsku sósíaldemókratarnir aftur yfir útidyralyklana að Rosenbad-stjórnarheimilinu í Stokkhólmi.

Nokkuð hefur verið beðið eftir fyrsta sjónvarpseinvígi Anderssons og Anders Borg, núverandi fjármálaráðherra. Það fór fram í kvöld og má sjá hér. Það var kannski ekki sérlega rismikið og enn má sjá að nýja leiðtogateymið hjá sósíaldemókrötunum hefur ákveðið að fara varfærnislega af stað og treysta því að sígandi lukka er best.

Færðu inn athugasemd