SF bara fyrir karla í vinnugöllum?

Það er ekki alveg út í loftið að halda því fram að það versta sem hent getur vinstri-sósíalíska flokka er að komast til áhrifa í ríkisstjórn.  Kannski heldur sú fullyrðing heldur ekki alveg en hún á þó alla vega við bæði heimilislífið innan Vinstri grænna á Íslandi og Sosialistisk Folkeparti (SF) í Danmörku og raunar mætti tína fleiri dæmi til.

Vandi VG á Íslandi er klassískur vandi flokka sem byggja á sterkri hugmyndafræði sem reynist síðan erfitt að hleypa í fulla framkvæmd í samvinnu við aðra og við það myndast eins konar ,,raunhyggjuarmur“ sem reynir þá að spila kalt út frá stöðunni og svo ,,hugsjónaarmurinn“ sem lítur á öll frávik frá hugsjónum flokksins sem svik.

SF í Danmörku stendur þó frammi fyrir dálítið öðrum vanda, þó hann sé vissulega svipaðs eðlis. SF undir forystu Villys Søvndals er einfaldlega sakaður um að hafa gjörsamlega horfið í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann tekur þátt í. Flokkurinn hafi varla komið nokkrum stefnumálum sínum í gegn og ekki sé að sjá á verkum utanríkisráðherrans Villy Søvndal að hann sé sammála stefnu formanns SF, Villys Søvndals, að nokkru leyti. Alltaf komi síðan forysta SF fram eftir að hafa bakkað með allt sitt og reyni að presentera framlag sitt til sameiginlegrar niðurstöðu sem annað hvort sigur eða alla vega varnarsigur.

Fylgið hefur hrunið af SF og formaðurinn Villy Søvndal, sem áður feykti flokk sínum í hæstu hæðir í skoðanakönnunum með eigin leiðtogahæfni (þá var talað um ,,Søvndal-effekten“) þykir nú jafnvel orðinn dragbítur á flokknum.

Um næstu helgi verður landsfundur flokksins haldinn og slæm staða flokksins hefur kallað á mikinn titring fyrir þann fund. Ekki er talið að formaðurinn sjálfur sé í fallhættu en þó er farið að tala um að það sé spurning um hvenær, en ekki hvort, hann þarf að stíga til hliðar.

Barátta fylkinganna með og gegn formanninum mun frekar birtast í varaformannskosningunni.

Søvndal og hans armur innan flokksins hugðist keyra í embætti ungan mann í varaformannsstöðuna í stað annars ungs manns, Thors Möger Pedersen skattamálaráðherra, sem einnig er úr armi formannsins.

Þessi ungi maður heitir Mattias Tesfaye. Það er engin lognmolla í kringum þann dreng, hann er nokkuð yfirlýsingaglaður og herskár í tali. Hann hefur einkum leitað í nálgun sem margir héldu að hefði dáið út fyrir um það bil þrjátíu árum hjá vinstri-sósíalistum þar sem verkalýðsstéttin er sett í forgrunn. Tesfaye er múrari og kynnir sig sem baráttumann verkafólks og talar fyrir fremur karllægum gildum þar sem nýmóðins hugðarefni vinstri-sósíalista, eins og jafnréttismál, hnattrænt réttlæti og umhverfisvernd, eiga ekki að skipta jafnmiklu og kjaramál verkalýðsins. Það er þegar orðið fleygt í umræðunni þegar hann sagði að SF ætti að berjast fyrir fólkið í Kansas-vinnugöllunum, slitsterkum klæðnaði sem notaður er við erfiðisvinnu.

Ekkert er auðvitað að því hjá vinstri-sósíalískum flokki að tala fyrir hag verkalýðsins en Tesfaye hefur ekki þótt sérlega taktískur í tali þegar hann vill að flokkurinn verði fyrst og fremst verkamannaflokkur í stað þess að reyna að ná til allra. Hann hefur jafnvel látið í það skína að ýmsar betri settar stéttir eigi varla heima innan SF. Ditte Giese, blaðamaður á Politiken og ein af örfáum feminískum röddum í danskri umræðu, skrifaði skeleggan pistil um helgina um aðferðafræði og retórík Tesfaye og leist ekki sérlega vel á. Pistillinn er þess virði að lesa.

Þessi nálgun mætir mikilli andstöðu annars sterks arms innan flokksins sem vill að flokkurinn reyni að ná til allra með gildum sínum. Þar er bent á að mikill hluti kjósenda og meðlima SF sé einmitt hópurinn sem Tesfaye vill nú snúa baki við, vel menntað fólk í stóru bæjunum sem hugað er um jafnrétti, umhverfisvernd og önnur gildi sem skilja má á Tesfaye að séu full ,,mjúk“ og ekki nógu mikið ,,working class“.

Fulltrúi þessa hóps í framboði til varaformanns er þingmaðurinn Meta Fuglsang.

Lengi vel stefndi í grimman slag um helgina og um tíma var sú sáttatillaga langt komin að búa einfaldlega til tvö varaformannsembætti til að bæði varaformannsefnin kæmust í sína stóla.

Nú er þriðji frambjóðandinn hins vegar kominn fram, Mette Touborg, borgarstjóri í danska bænum Lejre. Sumir segja að hún sé sáttatilboð runnið undan rifjum sjálfs formannsins þegar ljóst var að honum tækist ekki að knýja í gegn sinn unga Tesfaye. Ekki er ljóst á þessu stigi hvort þetta eykur enn á flækjuna eða leysir hana.

Það gæti því ýmislegt dramatískt gerst á landsfundi SF um helgina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: