Archive for apríl, 2012

16.4.2012

Fjármálatopparnir takast á

Sænsku sósíaldemókratarnir eru komnir á nokkurt flug í könnunum eftir leiðtogaskiptin, aftur orðnir stærsti flokkurinn þar, og nýi formaðurinn Stefan Löfven má því nokkuð vel við una. En vika er langur tími í pólitík og þónokkrar slíkar munu koma og fara áður en kosið verður til þings í Svíþjóð haustið 2014.

Í boltanum taka nýir þjálfarar oft með sér nýtt þjálfarateymi og það sama gera menn gjarnan í pólitík. Stefan Löfven kynnti sitt teymi til sögunnar nýlega og þar vakti mesta athygli hver skipaður var talsmaður flokksins í fjármálum. Í þá stöðu var sótt Magdalena Andersson, ríkisskattstjóri. Það verður s.s. hún sem tæki við stöðu fjármálaráðherra kæmust sænsku sósíaldemókratarnir aftur yfir útidyralyklana að Rosenbad-stjórnarheimilinu í Stokkhólmi.

Nokkuð hefur verið beðið eftir fyrsta sjónvarpseinvígi Anderssons og Anders Borg, núverandi fjármálaráðherra. Það fór fram í kvöld og má sjá hér. Það var kannski ekki sérlega rismikið og enn má sjá að nýja leiðtogateymið hjá sósíaldemókrötunum hefur ákveðið að fara varfærnislega af stað og treysta því að sígandi lukka er best.

11.4.2012

SF bara fyrir karla í vinnugöllum?

Það er ekki alveg út í loftið að halda því fram að það versta sem hent getur vinstri-sósíalíska flokka er að komast til áhrifa í ríkisstjórn.  Kannski heldur sú fullyrðing heldur ekki alveg en hún á þó alla vega við bæði heimilislífið innan Vinstri grænna á Íslandi og Sosialistisk Folkeparti (SF) í Danmörku og raunar mætti tína fleiri dæmi til.

Vandi VG á Íslandi er klassískur vandi flokka sem byggja á sterkri hugmyndafræði sem reynist síðan erfitt að hleypa í fulla framkvæmd í samvinnu við aðra og við það myndast eins konar ,,raunhyggjuarmur“ sem reynir þá að spila kalt út frá stöðunni og svo ,,hugsjónaarmurinn“ sem lítur á öll frávik frá hugsjónum flokksins sem svik.

SF í Danmörku stendur þó frammi fyrir dálítið öðrum vanda, þó hann sé vissulega svipaðs eðlis. SF undir forystu Villys Søvndals er einfaldlega sakaður um að hafa gjörsamlega horfið í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann tekur þátt í. Flokkurinn hafi varla komið nokkrum stefnumálum sínum í gegn og ekki sé að sjá á verkum utanríkisráðherrans Villy Søvndal að hann sé sammála stefnu formanns SF, Villys Søvndals, að nokkru leyti. Alltaf komi síðan forysta SF fram eftir að hafa bakkað með allt sitt og reyni að presentera framlag sitt til sameiginlegrar niðurstöðu sem annað hvort sigur eða alla vega varnarsigur.

Fylgið hefur hrunið af SF og formaðurinn Villy Søvndal, sem áður feykti flokk sínum í hæstu hæðir í skoðanakönnunum með eigin leiðtogahæfni (þá var talað um ,,Søvndal-effekten“) þykir nú jafnvel orðinn dragbítur á flokknum.

Um næstu helgi verður landsfundur flokksins haldinn og slæm staða flokksins hefur kallað á mikinn titring fyrir þann fund. Ekki er talið að formaðurinn sjálfur sé í fallhættu en þó er farið að tala um að það sé spurning um hvenær, en ekki hvort, hann þarf að stíga til hliðar.

Barátta fylkinganna með og gegn formanninum mun frekar birtast í varaformannskosningunni.

read more »