Borgin með augum hvers og eins

Sænski sjónvarpsþátturinn Uppdrag granskning byggir á rannsóknarblaðamennsku og stendur sig oft ansi vel í því hlutverki. Í gær var kastljósinu beint að Malmö í tilefni þeirra morða sem framin hafa verið í borginni á undanförnum misserum og enn festa í sessi ímyndina um borgina sem glæpaborg Svíþjóðar.

Hver sagði sína sögu. Upplifun íbúanna var allt frá því að halda því fram að ástandið væri ekki hótinu skárra en í Írak til þess að fólk tjáði sig sem var orðið þreytt á því að heyra fólk utan frá, sem aldrei kæmi til Malmö, útmála borgina sem krimmabæli þegar staðreyndin væri sú að borgin væri ósköp venjuleg borg þar sem fólk lifði sínu daglega lífi í friði og ró, líkt og alls staðar annars staðar.

Það sem kannski var athyglisverðast í þættinum var það að Malmö er alls ekkert mesta glæpaborg Svíþjóðar. Allir stóru sænsku fjölmiðlarnir í Stokkhólmi sem halda þeirri mynd á lofti ættu nefnilega frekar að líta niður í eigið húsport. Tölfræðin sem leidd var fram sýndi nefnilega að glæpaborg númer eitt í Svíþjóð er Stokkhólmur. Meira að segja með nokkrum yfirburðum.

Enginn dró úr því að vandamálin fyrirfyndust í fullt nógu miklu magni í Malmö en þó var því velt upp hvernig stæði á því að Malmö væri útmálað sem aðal syndasvollurinn, þrátt fyrir að tölfræðin sýndi annað. Ritstjóri menningarmála á skánska dagblaðinu Sydsvenskan velti því upp hvort það gæti verið vegna þess að sterk öfl í sænsku samfélagi einfaldlega vildu ekki að nein önnur mynd væri dregin upp af fjölmenningarborginni Malmö en að hún væri mislukkað samfélag, fyrst og fremst vegna of margra innflytjenda. Það er umhugsunarvert. Alla vega er spurningunni ósvarað.

Í 300 þúsund manna borg eins og Malmö er upplifun íbúanna á staðnum vissulega ólík. Þess vegna eru allar frásagnir íbúanna, eins ólíkar og þær hljóma, sannar í sjálfu sér. Sjálfur bjó ég eitt ár í Malmö fyrir nokkrum árum síðan. Eitthvað af þeirri upplifun notaði ég í grein sem kom út í safnriti þar sem ég ræddi m.a. reynslu mína af búsetu minni í borginni gagnvart sögusögnum fólks utan frá af borginni.

Af frásögn annarra mátti skilja að borgin væri einn stór vígvöllur en ég upplifði ósköp venjulega borg, meira að segja full tilbreytingarsnauða og litlausa fyrir minn smekk, ef eitthvað var. Fjölmenningin var í mínum augum kostur borgarinnar, það var frábært að geta rölt út á Möllevångstorget og litið til allra átta til búða og veitingastaða sem stóðu fyrir öll lönd heimsins, virtist vera. Það var frábært að búa á landamærum annars lands handan einnar brúar og geta skotist þar á milli og upplifað muninn. Búa í borg sem var á mörkunum.

Borgarbókasafnið þar er örugglega það flottasta á Norðurlöndum, Hamrélius og Akademibokhandeln niðri í bæ eru flottari bókabúðir en höfuðborg ríkisins handan sundsins getur státað af, þrátt fyrir talsvert meiri mannfjölda. Ég á yndislegar minningar af fæðingarorlofinu hitasumarið 2006 með dóttur mína í vagni í stóra almenningsgarðabeltinu, nestaður safaríkum sænskum jarðarberjum og kirsuberjum af Möllevångstorget. Ég hékk oft og lærði veturinn á undan á glænýja, flotta háskólabókasafninu niður við höfnina þar sem maður horfði á eftir stóru ferjunum sigla yfir til Póllands. Labbaði stundum inn á ókeypis sýningarnar á listasafninu ágæta.

Ég minnist skrýtnu hlutanna og skemmtilegu, þýska bakarísins á lestarstöðinni sem seldi jafnvel enn verri brauð en þau sænsku, heittrúarparsins með hárbandið og þykku skánskuna sína að boða trú á göngugötunni og gamla smjörsleikta töffarans sem upplifði sína bestu tíma þegar hann var filmaður á 8mm-vél í partíi með Rolling Stones í Malmö 40 árum áður en sat núna daglangt í Triangeln-verslunarmiðstöðinni. Fátt minnti á forna frægð nema hárgreiðslan.

Ljótir hlutir gerast í Malmö en þeir gerast líka í Kaupmannahöfn, þar sem ég bý núna. Og ekki virðast allir einu sinni jafnhjartahreinir í litlu, sætu Reykjavík, samkvæmt nýjustu fréttum af glæpagengjum og úraránum. Blessunarlega gengur þó lífið sinn vanagang á öllum þessum stöðum og upplifun flestra íbúanna af daglegu amstri er fremur friðsæl og góð, þrátt fyrir allt.

Malmö er því allt eins borg ferskra kirsuberja, frábærs bókasafn og exótískra veitingastaða eins og hún er borg ljótra húsa í úthverfum, glæpa og utangarðsfólks. Hún á sér margar hliðar, eins og allar borgir, og á skilið að fleiri sögur séu sagðar um hana en bara þær allra ljótustu.

2 athugasemdir to “Borgin með augum hvers og eins”

  1. Við hjónin vorum á ferðalagi fyrir tveim árum og ákváðum að gista frekar á hóteli í Malmö heldur en Kaupmannahöfn, verðið var 50% af því danska, og vissulega kostar lestarferðin eitthvað en hún er fljótleg og þægileg og það sparaðist samt heilmiklu.
    Og svo upplifðum við virkilega skemmtilega borg með fín veitingahús og notalegt afgreiðslufólk, ekki síst í kringum Lilla Torget sem skartar gömul borgarahús sem eru löngu brunnin í Kaupmannahöfn. — Og skemmtilegt svæði í kringum Turning Torso sem gæti verið okkur fyrirmynd um nýja byggð í Vatnsmýrinni.

    • Já, Malmö hefur margar skemmtilegar og fallegar hliðar. En líka ljótar og leiðinlegar, eins og allar borgir. Hún verður skemmtilegri og meira drífandi með hverjum deginum sem líður og, eins og þú bendir á, þá er nýja hverfið á Västra Hamnen virkilega skemmtilegt, göngin undir bæinn hafa tekist vel með lest sem stoppar við á helstu stöðum og nýja aðalbrautarstöðin er miklu flottari og stórborgarlegri en sú hinum megin við sundið í Malmö. Þannig að Malmö á skilið miklu fjölbreyttari mynd en bara af því versta sem gerist í skúmaskotum hennar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: