Archive for mars, 2012

29.3.2012

Borgin með augum hvers og eins

Sænski sjónvarpsþátturinn Uppdrag granskning byggir á rannsóknarblaðamennsku og stendur sig oft ansi vel í því hlutverki. Í gær var kastljósinu beint að Malmö í tilefni þeirra morða sem framin hafa verið í borginni á undanförnum misserum og enn festa í sessi ímyndina um borgina sem glæpaborg Svíþjóðar.

Hver sagði sína sögu. Upplifun íbúanna var allt frá því að halda því fram að ástandið væri ekki hótinu skárra en í Írak til þess að fólk tjáði sig sem var orðið þreytt á því að heyra fólk utan frá, sem aldrei kæmi til Malmö, útmála borgina sem krimmabæli þegar staðreyndin væri sú að borgin væri ósköp venjuleg borg þar sem fólk lifði sínu daglega lífi í friði og ró, líkt og alls staðar annars staðar.

Það sem kannski var athyglisverðast í þættinum var það að Malmö er alls ekkert mesta glæpaborg Svíþjóðar. Allir stóru sænsku fjölmiðlarnir í Stokkhólmi sem halda þeirri mynd á lofti ættu nefnilega frekar að líta niður í eigið húsport. Tölfræðin sem leidd var fram sýndi nefnilega að glæpaborg númer eitt í Svíþjóð er Stokkhólmur. Meira að segja með nokkrum yfirburðum.

read more »

21.3.2012

Að vera eða vera ekki í NATO

Ég ræddi það aðeins í pistli hér um daginn hversu mikill tvískinnungur það hefur lengi verið í Svíum að halda því fram að þeir séu utan hernaðarbandalaga. Þeir hafa auðvitað lengi, lengi verið ,,de facto“ í NATO.

Ég heyrði af heilmikilli stúdíu um þetta í sænskum útvarpsþætti um helgina. Þessi stúdía er komin út á bók og er tilnefnd til virtra verðlauna um bestu rannsóknarblaðamennsku síðasta árs. Bókin heitir Den dolda alliansen (ýtið á hlekkinn á bókartitlinum til að lesa ykkur nánar til um efnið) og virðist halda því fram að jafnvel enn meiri bönd hafi áratugum saman verið við NATO en almenningur hefur fengið að vita. Eiginlega hafi óháða staðan utan hernaðarbandalaga verið fullkomlega marklaus því að Bandaríkin hafi heitið fullri hernaðaríhlutun ef ráðist yrði á Svíþjóð. Svíar heyrðu, með öðrum orðum, og heyra væntanlega enn, í raun undir hinn fræga fimmta lið varnarsamnings NATO um að árás á eitt ríki jafngildi árás á þau öll.

Maður verður eiginlega að skaffa sér þessa bók (svo maður tali nú skandinavíu-skotið).

18.3.2012

Skáldskapur og raunveruleiki í Borgen

Um fátt var meira rætt á dönskum kaffistofum haustið 2010 en fyrsta kvenkyns forsætisráðherra landsins, hnarreista og ákveðna konu sem stóð í stafni nýrrar mið-vinstri ríkisstjórnar og tók við af áralangri hægri stjórn karla í gráum jakkafötum.

Hún náði, eftir nokkurn barning, að sameina að baki sér fremur ósamlyndan hóp sem spannaði litrófið frá borgaralegum miðjumönnum til róttæks fólks allra yst á vinstri vængnum. Hveitibrauðsdagarnir voru fáir ef þá nokkrir, rýtingsstungur í bakið urðu daglegt brauð og blákaldur pólitískur veruleikinn leiddi fljótt til þess að nýi forsætisráðherrann og stjórn hennar urðu að leggja alla fallega hugmyndafræði og framtíðarsýn til hliðar. Við tóku hnífskarpar ákvarðanir sem gengu þvert gegn þeim ófrávíkjanlegu loforðum af veggspjöldum sem jafnvel hengu enn uppi hér og þar um stræti og torg úr nýliðinni kosningabaráttu.

Einhverjir lesendur halda sjálfsagt að þeir hafi hingað til verið að lesa fréttaskýringu um dönsk samtímastjórnmál. Það hafa þeir líka í raun verið að gera. Það eina sem ekki passar fullkomlega við rauveruleikann er ártalið. Það á að vera 2011 en ekki 2010.

Forsætisráðherrann heitir reyndar ekki heldur Helle Thorning-Schmidt, hún heitir Birgitte Nyborg. Og svo er sú fyrrnefnda af holdi og blóði og tók við haustið 2011 en hin síðarnefnda er aðalpersónan í sjónvarpsþáttaröðinni Borgen sem fór í loftið hjá Danska ríkissjónvarpinu haustið 2010 og áhorfendur RÚV fylgjast spenntir með þessi sunnudagskvöldin.

read more »

11.3.2012

,,Heimssamviskan“ í kaldhæðnu ljósi

Stundum hafa Svíar verið kallaðir á ensku ,,the moral superpower“. Sumir hafa notað það í einlægni til að lýsa aðdáun á framlagi Svía til betri og siðvæddari heims en aðrir beitt því í kaldhæðni til að benda á tvöfeldni Svía sem predika góð gildi og leggja hart að öðrum að fara eftir þeim en eru síðan sjálfir ekki allir þar sem þeir eru séðir.

Þeir sem frekar taka sér hugtakið í munn með kaldhæðnistón hafa hátt þessa dagana. Sterkustu rökin gegn ,,the moral superpower“ (,,heimssamviskunni“, kannski) hafa ávallt verið að Svíar eru einir helstu vopnasalar í heimi og það hefur þótt ríma illa við allt þeirra kærleiks- og friðartal.

Nú er nefnilega komið upp hneykslismál í Svíþjóð þar sem varnarmálaráðherrann og öll stjórnin hefur orðið uppvís að ósannindum þegar hún neitaði tilvist vopnaverksmiðju í Saudi-Arabíu sem byggð er og rekin fyrir tilstilli sænskra krafta. Vopnin þaðan hafa t.d. verið notuð til að berja niður arabíska vorið í Barein að undanförnu og í öðrum álíka misjöfnum tilgangi. Hneykslið er í raun tvöfalt – bæði tilvist vopnaverksmiðjunnar sænskuskotnu í Saudi-Arabíu og svo það að stjórnin sagði ósatt, neitaði tilvist hennar en þurfti svo að éta allt slíkt ofan í sig.

read more »

4.3.2012

Vandamálið sem gufaði upp

Um helgina var í danska dagblaðinu Politiken vakin athygli á málefni vegna þess að það vekur ekki lengur athygli sem málefni í Danmörku.

Og hér verður vakin athygli á því að það málefni vekur ekki lengur athygli sem málefni.

Þetta er innflytjenda- og múslimaumræðan sem hertók allan fyrsta áratug þessarar aldar, um allan hinn vestræna heim raunar, en sérstaklega á ákveðnum svæðum og löndum, t.d. Danmörku.

Varla var gefið út það dagblað eða efnt til umræðuþáttar án þess að einhvers staðar kæmu fyrir hatrammar umræður um grundvallarspurningar á borð við þessar: Eru múslimar mjög vont fólk eða bara vont? Eru allir múslimar terróristar eða bara flestir? Er ljóst hvenær, ekki hvort, Islam mun taka yfir vestræn lýðræðissamfélög og færa þau aftur til myrkra miðalda? Mun sólin yfirleitt rísa á himni á morgun ef að danskar stofnanir verða að hætta að sörvera svínakjöt til þeirra sem neita að setja það inn fyrir sínar varir?

read more »