Archive for febrúar, 2012

26.2.2012

Sagan um hringinn

Það er óhætt að segja að miðvinstri-stjórn Helle Thorning-Schmidt hafi ekki fengið neitt fljúgandi start fyrsta vetur sinn. Fylgi við hana hefur mælst lítið og hvert vandræðamálið hefur rekið annað. Tólfunum kastaði þó fyrst í upphafi nýliðinnar viku þegar að eitt helsta vandræðabarna stjórnarinnar, umferðargjaldhringur umhverfis miðborg Kaupmannahafnar, endaði í einni alls herjar uppgjöf.

Gjaldhringurinn hefur verið inni í verkefnaáætlun Sósíaldemókratanna og Sosialistisk Folkeparti alveg frá því að flokkarnir sneru saman bökum 2009 og kynntu sameiginlega framtíðarsýn sína sem kosningabandalag. Hann byggir á svipuðum lausnum og í borgum eins og Stokkhólmi og London þar sem hann hefur verið settur upp sem tollur á umferð bíla til að minnka umferðarhnúta, mengun og styrkja almenningssamgöngur og þar með hvetja fólk til umhverfisvænni fararmáta.

Gjaldhringurinn var frá fyrstu tíð mjög umdeild hugmynd í Danmörku, sérstaklega meðal íbúa utan hans sem þurfa daglega að sækja vinnu eða eiga önnur regluleg erindi inn í miðbæ Kaupmannahafnar, innan hringsins. Þegar að vinstri flokkarnir og Radikale Venstre náðu meirihluta og mynduðu þriggja flokka stjórn með stuðningi Enhedslisten þá var gjaldhringurinn eitt þeirra mála sem sett var á oddinn og Helle Thorning-Schmidt nefndi hann sérstaklega sem mál sem hún lofaði að staðið yrði fullkomlega við.

read more »

19.2.2012

Menntafólkið á kassann í Netto

Mette Frederiksen, atvinnumálaráðherra í dönsku vinstri stjórninni, er einn hinna upprennandi sósíaldemókrata sem margir hafa spáð miklum frama.

Hún stýrir nú vandasömum málaflokki á krepputímum og þarf að standa frammi fyrir því, mörgum öðrum fremur, að svara þeirri spurningu hvernig megi bregðast við atvinnuleysi í Danmörku á krepputímum.

Það er flestum ljóst að það er ekki auðveld barátta og krefst sjálfsagt flókinna og margbrotinna aðgerða sem ekkert er svo víst að skili árangri á endanum. Vandamálið er stórt og hefur lengi verið – ekki bara í Danmörku heldur víða í Evrópu.

Þess vegna urðu margir sem vinna í þessum málaflokki ekki lítið ,,skúffaðir“ (svo maður noti nú dönskuslettu) þegar að ráðherrann lét það frá sér fara nú fyrir helgi að atvinnulaust menntafólk ætti líka að sækja um vinnu í Netto (sambærilegri verslunarkeðju og Bónus á Íslandi). Hún var með öðrum orðum að segja að menntafólk ætti ekki að vera of fínt til þess að gera allt til að fá vinnu, sækja um alls staðar, líka í Netto.

Það er reyndar vansagt að margir hafi orðið ,,skúffaðir“ yfir þessum ummælum. Fólk varð alveg brjálað. Sérstaklega það unga menntafólk og forsvarar þeirra sem fannst gróflega verið talað niður til sín og að ráðherrann væri þarna að beita ódýru bragði, vitandi það mætavel að hún væri ekki að ráðast að raunverulegu vandamáli, heldur skora pólitísk stig, þykjast vera hörkunagli til að ganga í augun á hópi kjósenda sem finnst of mikil linkind ríkja gagnvart atvinnulausum og bótaþegum.

Með öðrum orðum: Mette Frederiksen beitti popúlisma.

read more »

14.2.2012

Staða sósíaldemókrata

Í framhaldi af umræðum um leiðtogakrísuna í sænska sósíaldemókrataflokknum (sem kannski er búin, kannski ekki), leit fréttaskýringaþátturinn Konflikt í sænska ríkisútvarpinu yfir evrópska sviðið um síðustu helgi til að kíkja á stöðu sósíaldemókrataflokkanna hér og þar. Þátturinn er hér fyrir áhugasama.

12.2.2012

Stefan Löfven byrjar af öryggi

Sósíaldemókratarnir sænsku vonast til að hafa hoggið á þá hnúta sem þeir hafa hnýtt allt frá brotthvarfi Görans Perssons með endalausri leiðtogakrísu og tveimur formönnum sem frekar aukið vandann en hitt. Á það sérstaklega um  þann síðari, Håkan Juholt.

Juholt virtist að lokum hafa verið stillt upp með tvo valkosti af innsta valdakjarna flokksins: að segja sjálfur af sér eða vera steypt af stóli. Hann valdi fyrri kostinn.

Nú vonast sem sagt sænsku kratarnir til að nýi formaðurinn, Stefan Löfven, sé þessi sem veldur hnútahögginu langþráða hjá landsföðurlega flokknum sem hefur á eyðimerkurgöngu undanfarinna ára verið langt frá því að vera sá burðarbiti í sænskum stjórnmálum sem hann eitt sinn var.

Löfven kemur úr launþegahreyfingunni, hefur verið í forystu IF Metall, heildarsamtaka ýmissa iðnfélaga (systurfélag Samiðnar á Íslandi) og hefur starfað í innsta hring sænska sósíaldemókrataflokksins um nokkurt skeið. Þannig að þó hann hafi ekki komið fram sem réttur og sléttur stjórnmálamaður fyrr, þá hafa störf hans um langt skeið verið af pólitískum toga og klárlega innan hinna stóru sósíaldemókratísku hreyfingar.

Ýmsir hafa haldið að hér sé um enn eina lélegu bráðabirgðareddinguna að ræða á leiðtogakrísu sósíaldemókratanna en raunar er of snemmt að segja til um það nú. Efasemdarröddum um gildi Löfvens sem leiðtoga hefur verið svarað af þeim sem til dæmis benda á að hvorki Ingvar Carlsson né Göran Persson þóttu hafa styrka stöðu eða mikla útgeislun sem leiðtogar þegar þeir tóku við keflinu á sínum tíma. Urðu þó báðir farsælir leiðtogar til margra ára.

Þeir sem trúa á Löfven telja að hann sé rétti maðurinn til að takast á við það sem flesta skiptir mestu máli, sérstaklega á þessum tímum: atvinnu.

Það verður að segjast eins og er að þarna hefur Löfven virkað sterkur í upphafi og maður veltir því fyrir sér hvort efasemdir um umdeilda afstöðu hans í ýmsum öðrum málaflokkum komi til með að breyta svo miklu. Líklegt er að á krepputímum vilji fólk fyrst og fremst vita hvernig leiðtogi gamla landsföðurflokksins ætlar að redda atvinnumálunum. Það er gömul saga og ný.

Löfven kom fram í fyrsta ítarlega viðtalinu sínu á SVT í kvöld og hann komst fremur vel frá því. Honum tókst þar enn að leggja áherslu á þennan styrk sinn, m.a. í ljósi bakgrunns síns úr launþegahreyfingunni, og stimpla sig enn frekar inn sem maður með klassíska sýn á sósíaldemókratismann. Kannski jafnvel að einhverju leyti með vísan til þess tíma þegar samasemmerki var nánast á milli breiðs hóps verkalýðs og opinberra starfsmanna og kjósenda sósíaldemókrataflokksins. Seinni tíma áhersluatriði, eins og umhverfismál, jafnréttismál og innflytjendamál, voru alla vega minna til umræðu, raunar lítið sem ekkert á þau minnst. Allt snerist um atvinnu, efnahag, framleiðni. Gamli frasinn úr herbúðum Bill Clintons, ,,It’s the economy, stupid“ átti vel við.

Löfven nýtur auðvitað enn þá hveitibrauðsdaganna sinna. Hann getur enn vísað til þess að hann sé nýtekinn við embætti. Þess vegna komst hann upp með að svara mörgum spurningum með því að segja að verið væri að skoða þetta og hitt, meta eitt og annað og að þessi eða hinn samráðshópurinn innan flokksins myndi skila niðurstöðu um eitthvað innan skamms. Þessi svör munu hins vegar ekki duga lengi. Það eru kosningar haustið 2014 og sá tími er fljótur að líða þegar að leggja þarf línur til sigurs, sérstaklega í þeirri stöðu sem sænsku kratarnir eru í núna. Hveitibrauðsdagarnir verða því naumt skammtaðir, bæði á verkefnaáætlun flokksins og meðal kjósenda.

Málmiðnaðarforinginn þarf því að vinna hratt og vel. Fyrir sænsku sósíaldemókratana getur það hreinlega verið tilvistarspursmál, út frá því að endurheimta stöðu sína sem burðarbiti í sænskum stjórnmálum eða á hinn bóginn glata henni fyrir fullt og allt.