
Það á ekki af sænsku sósíaldemókrötum að ganga þessi misserin og árin. Allt frá því að hægri flokkarnir unnu kosningarnar 2006 hefur flokkurinn verið í gríðarlegri krísu, kannski sinni mestu í langri sögu flokksins stóra.
Þá strax, haustið 2006, var ljóst að Göran Persson var orðinn verulega þreyttur og slitinn í embætti og sumir sögðu að hann hefði átt að hætta nokkru fyrr enda virtist hugur hans vera fullmikið farinn að leita til bóndabýlisins sem hann var að byggja sér fremur en til verka hans sem formaður sósíaldemókrataflokksins og forsætisráðherra landsins.
Allir vissu lengi í hvað stefndi hjá sósíaldemókrötunum og þeir höfðu því nægan tíma til að leita eftirmanns Perssons en ekkert gekk. Ástæðan var fyrst og fremst sú að krónprinsar og -prinsessur flokksins höfðu engan áhuga á formannsembættinu, þrátt fyrir að þráfaldlega væri á eftir þeim gengið. Hér var fyrst og fremst um að ræða Margot Wallström sem nú gegnir lykilstöðu hjá SÞ en var áður um margra ára skeið framkvæmdastjóri í Framkvæmdastjórn ESB og um tíma 1. varaformaður Framkvæmdastjórnarinnar.
Oft og einatt hefur verið lögð þung pressa á Wallström að leysa úr leiðtogakrísu flokksins en svarið hefur alltaf verið á sama veg: ,,Nej!“
Wallström er yfirburðamanneskja og ekki skemmir það sjálfsagt heldur fyrir að margir hafa séð í henni eins konar ,,aðra Önnu Lindh“ en Anna Lindh var klárlega krónprinsessa flokksins og Göran Persson lýsir því meðal annars í ævisögu sinni hvernig hann sá það sem sjálfsagðan hlut að hún tæki við flokknum þegar að hann hætti. Morðið á Önnu Lindh breytti vitanlega öllu þar um.
Nei-ið frá Wallström og öðru álitlegu fólki hefur orðið til þess að allt frá síðustu árum Perssons og allt til dagsins í dag hefur hysterísk dauðaleit sósíaldemókratanna að góðum leiðtoga alltaf endað í einhverri málamiðlun um lægsta samnefnarann, yfirleitt einhvern 6. eða 7. besta kost í stöðunni – í besta falli.
Þetta átti klárlega við þegar að Mona Sahlin varð formaður eftir Persson og jafnvel enn frekar þegar að Håkan Juholt tók við flokknum og hálfpartinn ýtti Sahlin og hennar fólki í burtu í fyrra.
Håkan Juholt hefur reynst vera veikur formaður enda nánast alveg óþekktur fyrir, maður sem í mesta lagi er skítsæmileg málamiðlun eins og er.
Og nú molnar hratt undan Juholt, einkum vegna þess sem í besta falli má lýsa sem óreiðu í fjármálum en í versta falli sem fjármálasvindli. Drífa Snædal fer ágætlega ofan í saumana á þeim málum hér, það er fín lesning.
Håkan Juholt virðist því ætla að enda sína daga mjög fljótlega sem formaður. Auðvitað eru alltaf til óvæntir snúningar í stjórnmálum, þannig að Juholt gæti valið að berjast til síðasta manns en fátt bendir til þess í núverandi stöðu að slík barátta væri flokknum í hag. Eins og einn háttsettur sósíaldemókrati orðaði það í viðtali: ,,Við megum ekki við því að dragast ofan í annað Toblerone-mál árum saman“, og vísaði þar til fjárhagsóreiðunnar í kringum Monu Sahlin sem varð að lokum til þess að hún varð að segja af sér um miðjan tíunda áratuginn. Þau mál snerust reyndar um mun meira en einstök Toblerone-kaup, ólíkt því sem margir virðast vera farnir að halda í seinni tíð. En það er önnur saga.
Nú er því spurning hvort að lykilfólk í sósíaldemókrataflokknum þurfi að fara enn einu sinni niður á skeljarnar á skrifstofu Margotar Wallström, hvort þá dugi að segja nógu oft ,,snälla…, snälla…!“ (,,Gerðu það…, gerðu það!) til að hún aumki sig loksins yfir brunarústirnar í gamla flokknum sínum.