Archive for september, 2011

29.9.2011

Miðflokkurinn áfram til hægri

Maud Olofsson hefur verið einhver mest áberandi pólitíkus í Svíþjóð undanfarin ár. Ég man ekki betur en að það hafi verið á sumardvalarstað hennar einhvers staðar norðarlega í Svíþjóð sem plönin um kosningabandalag hægri flokkanna voru tilkynnt sumarið 2004, þegar ég var nýfluttur til Stokkhólms.

Öll þau plön gengu upp hjá hægri blokkinni og hún vann kosningarnar 2006 og aftur 2010. Maud Olofsson hefur verið ráðherra í hægri stjórninni síðan.

Nú hefur hún stigið til hliðar sem formaður Centerpartiet og við tekur ung kona, Annie Lööf, einungis 28 ára gömul.

Það er alþekkt meðal miðflokka hér og þar að það skiptast á tímabil hjá þeim þar sem hægri armur þeirra ræður ríkjum og heldur þeim hægra megin við ásinn og gefur síðan eftir fyrir vinstri armi eftir einhvern tíma sem færir flokkinn þá í hina áttina. Radikale Venstre, miðflokkurinn í Danmörku, er klárlega vinstra megin við ásinn núna og hefur verið um nokkurn tíma en Centerpartiet hefur hins vegar verið vel hægra megin undir stjórn Maud Olofsson.

Nú tala menn í Svíþjóð um að flokkurinn undir stjórn Annie Lööf muni jafnvel fara enn lengra til hægri – svo langt raunar að hann geti engan veginn talist miðflokkur lengur. Þannig segja sumir að Annie Lööf sé engin ,,centerpartisti“, hún sé últrahægrikona, langt hægra megin við allt sem telst til miðju í stjórnmálaflórunni.

Centerpartiet er því orðinn ansi fjarri því að vera sami flokkur og hann var undir stjórn manna eins og Olof Johansson en í hans tíð, sér í lagi undir lokin, var flokkurinn með nokkra vinstri slagsíðu og varði m.a. ríkisstjórn sósíaldemókratanna falli á tíunda áratugnum á fyrstu stjórnarárum Göran Perssons.

Það verður spennandi að fylgjast með hvað þessi gamli dreifbýlis- og bændaflokkur gerir undir forystu Annie Lööf.

22.9.2011

Borgen

Það er nokkuð gott tákn um að traust ríki í samningaviðræðum um nýjan stjórnarmeirihluta í Danmörku að nánast ekkert hefur lekið út af markverðum fréttum.

Ein Facebook-vinkona mín vakti athygli á því í dag á sínum vegg hvað fjölmiðlarnir væru komnir í mikil smáatriði í sínum greiningum í fréttaþurðinni af viðræðunum. Hún vísaði þar í grein í Berlingske þar sem það var greint í löngu máli af hverju leiðtogar vinstri flokkanna væri alltaf að faðmast þegar þeir mættust til samninga – hvort þetta væri traustvekjandi eða ekki og svo fram og til baka.

Þeir sem hins vegar geta ekki beðið frétta úr raunheimum geta loksins varpað öndinni léttar yfir öðru, úr skáldheimum reyndar, sem Danir hafa beðið lengi eftir – og það úr ansi viðlíka átt:

Fyrsti þátturinn í annarri seríu Borgen er nefnilega að fara í gang á sunnudaginn kemur og hér á vefsíðu DR má þegar sjá fyrsta þáttinn. Þetta er eins konar West Wing þeirra Dana, varð gríðarlega vinsælt síðasta vetur og sjálfur verð ég að viðurkenna að ég lá kylliflatur fyrir þessu.

19.9.2011

,,Fariði bara í smá frí…“

,,Takið ykkur bara smá frí„, sagði Helle Thorning-Schmidt við blaðamenn aðspurð um gang stjórnarmyndunarviðræðnanna.

Og satt að segja er ekki mikið að frétta. Flest lítur út fyrir að verið sé að ræða á þeim nótum að mynda eigi þriggja flokka S-SF-R-stjórn með stuðningi Enhedslisten. Þó má eins gera ráð fyrir að nýja stjórnin kjósi þá leið að leita samstarfs annað, og þá yfir á hægri vænginn, um ýmis viðamikil mál. Til dæmis er ekkert frekar gert ráð fyrir því að Enhedslisten verði treyst fyrir fjárlögunum, þar muni breiðari stuðningur vera nauðsynlegur til að hætta engu.

Annað sem mikið er rætt fram og til baka eru einstök mál eins og stytting dagpeningatímans úr fjórum í tvö ár (Radikale standa gegn því að hreyft verði við þeim breytingum hægri stjórnarinnar) og svo er deilt um gjaldkerfi á vegatoll inn og út úr afmörkuðum hring um miðsvæði Kaupmannahafnar. Mörg önnur mál mætti einnig nefna.

En stóru fréttirnar eru sem sagt, þrátt fyrir allt, að engar stórar fréttir hafa enn borist. Það er enn verið að díla í lokuðum fundarherbergjum.

17.9.2011

Greinar um Helle

Hér er fín grein eftir Rósu Erlingsdóttur stjórnmálafræðing um Helle Thorning-Schmidt, verðandi forsætisráðherra Danmerkur.

Sjálfur skrifaði ég svo smá færslu um Helle á sínum tíma, aðallega út frá bók sem ég renndi mér í gegnum um hana.

15.9.2011

Danmörk er rauð

Nú er þetta orðið ljóst. Samkvæmt Politiken er Lars Løkke Rasmussen búinn að viðurkenna ósigur sinn.

Rauð blokk vinnur. Helle Thorning-Schmidt verður fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Danmerkur. Þá er bara Svíþjóð eftir.

Hið skrýtna er að kjarninn í vinstri blokkinni, S og SF, flokkarnir sem kannski verða þeir einu í nýrri vinstri stjórn, tapa báðir. Það er hins vegar stórsigur Radikale Venstre og Enhedslisten sem býr þennan meirihluta til.

Þetta er sögulegur dagur í danskri pólitík.

15.9.2011

Háspenna hér í nágrenninu

Í þriggja mínútna hjólafjarlægð frá mér er gríðarleg spenna, á kosningavökum SF og S á Vesterbro.

Ýmislegt bendir til þess að vinstri meirihlutinn sigri, eins og staðan er ákkúrát í þessum skrifuðu orðum. En bara fyrir fimm mínútum voru hægri flokkarnir komnir einum manni yfir. Svo breyttist það aftur.

Það stefnir í langa kosningavöku hér í nágrenninu og að úrslit ráðist jafnvel ekki fyrr en alveg í lokin.

Jafnvel gæti komið til þess að nágrannar okkar Íslendinga, Færeyingar og Grænlendingar og þeirra fjóru fulltrúar, geti haft úrslitaáhrif um það hvoru megin meirihlutinn lendir. Einhvers staðar las ég það í dag að líklega fái sósíaldemókratarnir 3 af þeim 4.

Þetta verður áfram spennandi, ekki spurning.

15.9.2011

Útgönguspá: Rauð blokk vinnur!

Útgönguspá komin hjá Danska ríkissjónvarpinu: 91 sæti til rauðu blokkarinnar, 84 til bláu blokkarinnar.

Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin virðist fallin og vinstri meirihlutinn tekur við. Helle Thorning-Schmidt verður fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Danmerkur.

Sigurvegarar kosninganna verða Radikale Venstre og Enhedslisten sem stórauka þingmannafjölda sinn.

Útgönguspáin sem kom nú rétt í þessu er raunar uppfærð útgáfa af þeirri útgönguspá sem kom fyrir u.þ.b. klukkutíma síðan. Hún sýndi nánast sömu niðurstöðu, sem gerir þessa spá nokkuð trúverðuga.

En útgönguspá er ekki það sama og kosningaúrslit, þannig að við bíðum og sjáum.

14.9.2011

Kortér í þrjú hjá Venstre og hetjan yst á kantinum

Mette Østergaard hjá Politiken talar hér á vefsjónvarpi dagblaðsins um það sem hún kallar ,,panik før lukketid“ (mætti útleggjast sem ,,kortér í þrjú“ upp á íslenska mátann) hjá Venstre sem nú eru allt í einu farnir að sverma fyrir Radikale Venstre og tala um að hægri stjórn eftir kosningar yrði RKV-stjórn, það er stjórn Venstre, Konservative og Radikale Venstre. Ekki virðist nein sérstök stemning fyrir slíku í röðum Radikale Venstre og Venstre-menn sjálfir virtust sjálfir ekki sérlega spenntir fyrir því fyrr en allt í einu núna.

Annars sýnir þetta e.t.v. fram á að nokkur kaflaskipti séu að verða í danskri pólitík eftir áratug þar sem Dansk Folkeparti hefur verið í lykilstöðu og tekist að gefa tóninn í umræðunni og beina ýmsum stefnumálum í þjóðernislega átt, sér í lagi auðvitað innflytjendamálum.

Nú virðist DF hins vegar hafa glatað lykilstöðu sinni og aðrir flokkar virðast vera nokkuð sammála um að samstarf við þá komi síst til greina og nokkrir útiloka það raunar alveg. DF hefur líka gengið mun verr en áður að koma sínum lykilmálum á framfæri og almennt hefur kastljósið beinst annað í kosningabaráttunni.

Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að úrslit kosninganna verði, þegar allt liggur fyrir, þau að DF komist enn einu sinni í lykilstöðu í danskri pólitík og þá færist Pia Kjærsgaard og hennar fólk allt í aukana aftur. Það er þó ekki sérlega líklegt í dag, ekki síst út frá því að augngotur Radikale Venstre og Konservatie, hvort til annars, virðast benda til þess að annað hvor eða báðir þessara flokk verði þau lóð sem muni lyfta vogarskálunum annað hvort til vinstri eða hægri eftir þessar kosningar.

Dönsk pólitík án lykilstöðu DF verður allt önnur.

Það er annars merkilegt að fylgjast með því hver hefur verið einna mesta hetja þessarar kosningabaráttu, sú sem hefur verið efst í einhverjum könnunum um fylgi við flokksforingja og þótti standa sig best í leiðtogadebatt gærkvöldsins á DR.

Það er ekki Helle Thorning-Schmidt og ekki heldur Lars Løkke.

Það er Johanne Schmidt-Nielsen, talsmaður Enhedslisten. Þessi einungis 27 ára gamli forystumaður Enhedslisten hefur þótt einstaklega skelegg í kosningabaráttunni og þess fyrir utan á hún auðvelt með að heilla fólk langt út fyrir raðir sinna kjósenda. Þrátt fyrir ungan aldur vílar hún ekki fyrir sér að vaða í stallsystkini sín sem jafnvel byrjuðu í pólitík löngu áður en hún fæddist. Yfirleitt á hún auðvelt með að færa rök fyrir sínu máli, er föst fyrir og hefur sýnt mikla leiðtogahæfileika. Menn telja hana vera eina helstu ástæðu þess að Enhedslisten stefnir í að tvöfalda fylgi sitt í kosningunum á morgun og fá t.d. meira fylgi en annar af núverandi stjórnarflokkum, Konservative.

Það er athyglisvert að talsmaður Enhedslisten nái svona miklu fylgi, sérstaklega vegna þess að Enhedslisten stendur mjög utarlega á vinstri kanti danskra stjórnmála, til vinstri við SF, hinn klassíska sósíalistaflokk í Danmörku.

Flokkurinn er á móti aðild Danmerkur að ESB og aðhyllist allt aðrar efnahagslausnir en flestir hinna flokkanna og hafa tillögur þeirra í þeim málaflokki fengið algjöra falleinkunn sem fullkomlega óraunhæfar hjá öllum efnahagsspekúlöntum undanfarið. Því hefur Enhedslisten að sjálfsögðu svarað fullum hálsi.

Það er nánast útilokað að Enhedslisten fái sæti í hugsanlegri vinstri stjórn eftir kosningar en það er vel mögulegt að stjórnin þurfi að treysta á stuðning hans. Það fer þó eftir því hversu mikið er að marka það sem Margarethe Vestager, leiðtogi Radikale Venstre, sagði um daginn þar sem hún sagði sig fremur líta til Konservative um stuðning við hugsanlega vinstri stjórn en Enhedslisten.

Hvað sem öllu líður er Enhedslisten ákaflega áhugavert fyrirbæri í danskri pólitík, eykur skemmtilega á flóruna þar, og það eitt er alla vega víst að Johanne Schmidt-Nielsen er hetja langt út fyrir sínar raðir.

12.9.2011

Kosningasöngvar

Eitt það alhallærislegasta við kosningabaráttu í Danmörku eru kosningasöngvar sem flokkarnir senda frá sér til að búa til stemningu. Það á yfirleitt við það sama hér og þegar fótboltafélög senda frá sér söngva, fólkið skilur ekki alveg að hæfileikar á einu sviði þurfa ekki að þýða hæfileika á öðru sviði.

Þetta er annars frekar fjölbreytt flóra og endurspeglar furðuvel flokkana sjálfa.

Hér er til dæmis baráttusöngur Enhedslisten, hiphop tekið upp í borgarumhverfi í Kaupmannahöfn.

Hjá Dansk Folkeparti kveður hins vegar við annan tón. Þar er það schlager-hefðin með viðeigandi rafmagnshljómborði og trommutakti. Á milli fáum við svo myndir af gulum ökrum í glaðasólskini. Ákaflega viðeigandi fyrir hefðbundinn kjósanda þess flokks, myndi maður halda, rétt eins og í tilviki Enhedslisten.

…og svo eru grínararnir að sjálfsögðu strax komnir á stjá. Þar hefur söngur DF fengið nýjan texta undir titlinum ,,Hvidt land“:

8.9.2011

Leðjuslagurinn hafinn

Nú þegar bara vika er til kosninga í Danmörku þá virðast einhverjir vera farnir að vera taugatrekktir yfir því að þeirra ,,lið“ tapi sjálfum úrslitaleiknum. Þess vegna hafa einhverjir leyft sér að fara út fyrir mörk hins háttvísa og leka fréttum í gulu pressuna sem meira tengjast leðjuslag en raunverulegri atburðarás og hvað þá að þær tengist málefnalegri umræðu.

Mette Østergaard á Politiken fer í stuttu máli yfir það helsta sem er að frétta úr þessum leðjuslag á vefsjónvarpi dagblaðsins.

Reyndar virðist alla vega götublaðið BT hafa skotið sig í fótinn með fréttum af mögulegum tilraunum Helle Thorning-Schmidt til að sleppa við að borga skatt. BT fór í sömu herferð fyrir nokkrum misserum síðan en endaði á því að þurfa að bakka með sinn fréttaflutning að mestu. Nú segir BT að hrein tilviljun ráði því að málið komi upp nú þegar aðeins vika er í kosningar.

Því eiga ekki allir jafn auðvelt með að trúa.