Archive for ágúst, 2011

28.8.2011

Analys Norden

Íslenskt áhugafólk um alþjóðastjórnmál grípur oftast svo til í tómt þegar kemur að góðri umfjöllun á íslensku um þennan málaflokk. Þó er ekki víst að allir átti sig á því að til eru lítið þekkt skúmaskot þar sem lúmskt góð umfjöllun fer fram á íslensku um þennan málaflokk.

Til dæmis má benda á vefritið Analys Norden sem kemur reglulega út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar er skrifað um samtímaþjóðmál á Norðurlöndunum og skrifin annast óháðir blaðamenn, einn frá hverju Norðurlandanna, hver um þema hvers heftis út frá sínu landi. Blaðamennirnir fá algjörlega frjálsar hendur við skrif sín og tjá því einungis eigin skoðanir. Þetta er því fjarri því að vera eitthvert áróðursrit Norrænu ráðherranefndarinnar.

Þarna eru oft fantagóðar og oft nokkuð djúpar úttektir á ýmsum málaflokkum hjá hverju og einu landanna.

Og það sem ekki skiptir litlu máli, þetta er allt þýtt yfir á íslensku.

– – –

Og fyrst maður er nú byrjaður að linka, þá er hér grein af Smugunni eftir Örn Ólafsson um dönsku kosningarnar framundan. Ég er ekki sammála hans mati um nándar nærri allt en þetta er samt ágætis yfirferð hjá honum.

27.8.2011

Ný fjólublá ,,blokk“?

Undanfarin áratug hefur hin svokallaða ,,blokpolitik“ fest sig nokkuð tryggilega í sessi hér í Danmörku með hægriflokkana Venstre, De Konservative og Dansk Folkeparti (og reyndar líka Liberal Alliance síðan 2007) í bláu ,,blokkinni“ öðrum megin og hinum megin í rauðu ,,blokkinni“ Sósíaldemókratana, Socialistisk Folkeparti, Radikale Venstre og Enhedslisten.

Undanfarin ár hefur slefan varla slitnað á milli þeirra Helle Thorning-Schmidt, leiðtoga kratanna, og Villy Søvndal, formanns SF. Þau hafa í raun myndað kosningabandalag og lagt í áralangan undirbúning til þess að samstilla stefnur flokkanna til að vera tilbúnir til að taka við stýrinu þegar að næstu kosningum kemur.

Liður í þeirra áætlun var sú umdeilda ákvörðun að bjóða Radikale Venstre ekki með í samstarfið nema þeir væru til í að ganga að svo til öllum kröfum S-SF tvíeykisins. Sumum þótti það skynsamlegt, Radikale hefðu hvort eð er engan annan kost en að ganga til liðs við rauðu blokkina á endanum og yrðu þá að kyngja öllu, ellegar éta það sem úti frýs.

Öðrum þótti þetta nokkuð bratt og jafnvel hrokafullt enda vitað að sú staða myndi varla koma upp að S og SF gætu einir haft þingstyrk til að mynda stjórn – yrðu þá að minnsta kosti að treysta á hlutleysi einhvers í minnihlutastjórn. Og þá koma fáir aðrir en Radikale Venstre til greina, ekki síst eftir skotgrafirnar sem sífellt hafa dýpkað milli rauðu og bláu blokkarinnar í dönskum stjórnmálum undanfarinn áratug.

Það væri því ekki vís leið til að blíðka þessa nauðsynlegu bandamenn að segja þeim að kyngja öllu eða éta það sem úti frýs.

read more »

27.8.2011

Hvar stendur þú í dönskum stjórnmálum?

Hvar stendur þú í dönskum stjórnmálum?

Politiken er búið að setja upp stutt krossapróf sem gæti gefið þér fróðlega mynd af því.

26.8.2011

Pallborðsumræður í Danska sjónvarpinu

Hlutirnir gengu hratt fyrir sig í Danmörku í dag. Í morgun boðaði Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra til kosninga. Strax seinni partinn þegar ég hjólaði heim úr vinnu þá var komið brosandi andlit á pappaspjaldi á annan hvern ljósastaur og nú hefur sjónvarpsdagskrá Danska ríkissjónvarpsins (DR) verið undirlögð af kosningaefni nánast allt kvöldið.

Strax voru settar á pallborðsumræður og þeim er nú nýlokið og í þessum töluðu orðum sitja spekúlantar í myndveri og reyna að komast að því hver það var sem stóð sig best.

Nú veit ég ekki hversu mikið DR leyfir aðgang að sínu efni utan Danmerkur en ef fólkið þar er gjafmilt á efnið sitt má núna fylgjast með því sem fer fram í beinni útsendingu í kosningasjónvarpinu. Þarna er raunar þegar kominn upp glæsilegur kosningavefur og á öllu er frekar greinilegt að allir – bæði fjölmiðlar og flokkarnir – hafa verið með allt sitt tilbúið til að ýta úr vör um leið og Lars Løkke ,,ýtti á kosningatakkann“, eins og það er svo oft orðað hér.

Könnun dagsins á DR sýnir vinstri flokkana með nokkra forystu. En vika er langur tími í pólitík. Hvað þá þessar tvær sem enn þá eru til kosninga.

26.8.2011

Blogg um norræn stjórnmál

Hér er ég að hugsa um að blogga um norræn stjórnmál og þjóðlíf, þegar mér þykir tilefni til. Sjálfsagt verður þetta fyrst og fremst um sænsk og dönsk stjórnmál, þar sem ég þekki best til, en kannski slæðist eitthvað annað með líka.