13.3.2017

Einstaklingsfrelsið í Svíþjóð

Á morgun ætla ég að stýra stuttum umræðum í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar The Swedish Theory of Love á norrænu kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir í Norræna húsinu. Ég ræði þar við sænska félagsfræðinginn og heimspekinginn Åke Sandberg og Guðmund Jónsson sagnfræðing um efni myndarinnar.

Myndin sjálf hefur raunar verið frekar umdeild en hún byggir meðal annars á athyglisverðum fullyrðingum sem fram komu í bókinni Är svensken människa? frá árinu 2006. Í stuttu máli ganga höfundar bókarinnar gegn ríkjandi hugmyndum um Svíþjóð (sama orðræða oft hermd upp á Norðurlöndin) að þar sé allt bundið í klafa einhvers konar allsherjar sósíalisma þar sem enginn fær að blómstra sem einstaklingur. Þessari mynd af Svíþjóð er t.d. oft haldið fram í Bandaríkjunum þar sem fólk hefur útnefnt sjálft sig sem heimsmeistara í einstaklingsfrelsi.

Höfundar bókarinnar Är svensken människa? segja þetta engan veginn standast nánari skoðun. Lesa meira

7.3.2017

Nýr ,,brómans“ í danskri pólitík

Það hefur stundum verið talað um Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem ,,den store politiske håndværker“ í dönskum stjórnmálum. Hann sé eins og góður iðnaðarmaður sem getur gert upp hvaða hripleka kofa sem er og baksað saman flóknustu hlutum svo þeir líta út sléttir og felldir að verki loknu. Hann gefur lítið út á ,,pólitískan ómöguleika“ svo vitnað sé í starfsbróður hans í öðru landi.

Frá sumarkosningunum 2015, þar sem hann komst aftur til valda sem forsætisráðherra, hefur þó reynt einkar mikið á hinn pólitísk handlagna Lars. Þingmeirihlutinn sem stóð að baki ríkisstjórn hans gat vart staðið tæpar og ofan á það bættist að enginn flokkanna sem mynda hægri blokkina í dönskum stjórnmálum vildi fara í ríkisstjórn með Venstre, flokki Lars Løkke. Konservative, danski Íhaldsflokkurinn, náði ekki nema rétt rúmlega pilsnerfylgi og hafði ekki sjálfstraust í stjórnarsetu. Frjálshyggjuflokkurinn Liberal Alliance mat það svo að stjórnarseta yrði til þess að útvatna stefnu flokksins í alls konar málamiðlunum og óvinsælum ákvörðunum og sömu sögu má segja um stærsta hægri flokk Danmerkur, Dansk Folkeparti.

Eftir stóð því Lars Løkke og flokkur hans Venstre og niðurstaðan varð minnihlutastjórn þeirra einna með stuðningi hinna flokkanna þriggja.

Lesa meira

15.10.2012

Hallarbylting í SF

Stundum fara hlutirnir ekki eftir áætlun í pólitík. Það hefur Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur og fráfarandi formaður sósíalistaflokksins SF, mátt reyna að undanförnu.

Fyrir fáeinum vikum kom hann nokkuð mörgum landsmönnum sínum á óvart þegar að hann tilkynnti að hyggðist hætta sem formaður SF. Þegar ég segi að hann hafi komið ,,nokkuð mörgum“ landsmönnum sínum á óvart, þá er það vegna þess að um nokkurt skeið hafði því verið spáð að fararsnið væri á Villy Søvndal. Allflestir héldu hins vegar að hann myndi halda út í fáein misseri enn og þá kannski hætta einhvern tíma á næsta ári þegar að kjörtímabilið væri um það bil hálfnað.

Þegar ákvörðunin var tekin voru spekingar í danskri pólitík hins vegar ekki í nokkrum vafa um það að nú færi í gang vel hönnuð atburðarás. Hún yrði eftirfarandi:

Villy Søvndal lýsir ekki yfir stuðningi við neinn eftirmann sinn en segist vilja láta flokksmenn sjálfa um að ráða fram úr því. Annað sé óviðeigandi. Bak við tjöldin sé hans hópur hins vegar búinn að makka og það þá með töluverðu forskoti á hugsanlega frambjóðendur annarra afla innan flokksins. Einhver úr hinu svokallaða ,,børnebanden“ sem fylgir Søvndal eins og skugginn innanflokks muni bjóða sig fram. Viðkomandi fær tryggðan svo staðfastan stuðning frá lykilöflum innan flokksins að fulltrúar þeirra afla sem vilja færa flokkinn í aðra átt eða hafa verið gagnrýnin á flokksforystu Villys Søvndal munu átta sig á því að slagur við vel smurða maskínu flokkselítunnar er fyrirfram tapaður. Þess vegna mun enginn alvöru kandídat bjóða sig fram gegn krónprinsessu/prinsi fráfarandi formanns.

Nema jú, ef til vill væri hentugt að eitthvað nógu hættulaust nóboddí innanflokks byði sig fram til þess að kandídat Villys Søvndal geti unnið með nánast rússneskri kosningu, vísað eftir það í umboð flokksmanna en um leið haldið því fram að fram hafi farið opið og lýðrðislegt formannskjör innan SF þar sem allir sátu við sama borð. Lesa meira

19.8.2012

Umræður í fjölmenningarsamfélagi

Í Danmörku hefur verið í gangi umræða sem sumir vilja skrifa á gúrkutíð en öðrum finnst tengjast grundvallarmálum sem koma persónulega við markverðan hóp landsmanna. Um tvö aðskild mál er að ræða.

Fyrra málið geisaði í dönskum fjölmiðlum í júlí og enn eimir raunar eftir af þeirri umræðu. Hún á reyndar kannski eftir að fá vind í seglin á ný eftir að danska þingið kemur saman og tekur málið hugsanlega á dagskrá. Það tengist umskurði drengja sem tíðkast bæði í Gyðingdómi og Íslam og er reyndar víðar til siðs. Fram komu raddir sem vildu vekja upp umræðu á því að það væri siðferðislega rangt að gera aðgerð á karlkyns kornabörnum í nafni trúarbragða sem einstaklingurinn sem fyrir aðgerðinni verður velur ekki að láta gera sjálfur. Þarna er auðvitað komið inn á grundvallarágreining um trúfrelsi einstaklingsins gagnvart viðhaldi trúarlegra og menningarlegra siða. Inn í þá umræðu voru m.a. leiddar rannsóknir sem sýndu fram á að umskurðir geti haft hættu í för með sér og kunni að m.a. leiða til vandamála í kynlífi einstaklingsins síðar á ævinni. Aðrir komu þá fram sem drógu gildi slíkra rannsókna í efa og þótti málið allt vera hinar mestu nornaveiðar. Þeir sem lengst gengu jöfnuðu umræðuna jafnvel við ofsóknir á Gyðingum í Þriðja ríkinu.

Engin niðurstaða er sem sagt komin í málið en ýmsir þingmenn töldu í sumar að vert væri að taka málið upp þegar þing kemur saman á ný og hugleiða jafnvel bann við umskurði drengja. Það verður spennandi að sjá hvort að málinu verður haldið vakandi eða hvort það mun víkja af þingdagskránni sem gúrkufrétt frá liðnu sumri. Vandi er um slíkt að spá á þessu stigi. Lesa meira

29.5.2012

Loreen ekki nógu sænsk

Þjóðernisíhaldsflokkurinn Sverigedemokraterna hefur lagt töluverða vinnu í það undanfarin ár að gera hreingerningu – alla vega yfirborðshreingerningu – í sínum röðum og hreinsa út öll viðhorf sem beinlínis teljast rasísk eða jafnvel nasísk og taka upp penari stefnu og orðræðu sem þó einkennist enn af málflutningi um innflytjendur sem skaðvalda og að allt sænskt sé best.

En öðru hvoru koma þeir þó upp um sig. Það gerðu þeir t.d. fyrir fáeinum árum síðan þegar að rannsóknarblaðamaður á vegum Sænska ríkisútvarpsins dulbjó sig sem stuðningsmann flokksins og fór í reisur með flokksforystunni með falinn hljóðnema. Þar kom m.a. í ljós að Sverigedemokraterna syngja enn nasistalög þegar þeir eru á djamminu og vísur sem hæðast að morðinu á Olof Palme.

Á laugardaginn kom svo einn forystumaður Sverigedemokraterna, Björn Söder flokksritari, enn einu sinni upp um sjálfan sig. Mestöll sænska þjóðin gladdist þá yfir glæsilegri frammistöðu söngkonunnar Loreen sem rétt í því hafði unnið Júróvisjón-söngvakeppnina fyrir Svía með fáheyrðum yfirburðum.

En Björn Söder gladdist ekki. Þegar sigurinn var ljós svaraði hann athugasemd á Facebook-síðu sinni um að Svíþjóð hefði unnið keppnina með því að skrifa: ,,Svíþjóð?“ Lesa meira

23.5.2012

Bók um Sverigedemokraterna

Það er skammt stórra högga milli hjá mér í lestri á bókum sem tengjast sænskum stjórnmálum. Ég lauk í dag lestri greinasafns um sænska þjóðernisíhaldsflokkinn Sverigedemokraterna. Hér má lesa smá færslu um þá lestrarupplifun mína.

19.5.2012

Ævisaga Olofs Palme

Ég er nýbúinn með þykka og mikla ævisögu sænska stjórnmálamannsins Olofs Palme. Ég skrifaði smá umsögn um bókina og hana má lesa hér.

16.4.2012

Fjármálatopparnir takast á

Sænsku sósíaldemókratarnir eru komnir á nokkurt flug í könnunum eftir leiðtogaskiptin, aftur orðnir stærsti flokkurinn þar, og nýi formaðurinn Stefan Löfven má því nokkuð vel við una. En vika er langur tími í pólitík og þónokkrar slíkar munu koma og fara áður en kosið verður til þings í Svíþjóð haustið 2014.

Í boltanum taka nýir þjálfarar oft með sér nýtt þjálfarateymi og það sama gera menn gjarnan í pólitík. Stefan Löfven kynnti sitt teymi til sögunnar nýlega og þar vakti mesta athygli hver skipaður var talsmaður flokksins í fjármálum. Í þá stöðu var sótt Magdalena Andersson, ríkisskattstjóri. Það verður s.s. hún sem tæki við stöðu fjármálaráðherra kæmust sænsku sósíaldemókratarnir aftur yfir útidyralyklana að Rosenbad-stjórnarheimilinu í Stokkhólmi.

Nokkuð hefur verið beðið eftir fyrsta sjónvarpseinvígi Anderssons og Anders Borg, núverandi fjármálaráðherra. Það fór fram í kvöld og má sjá hér. Það var kannski ekki sérlega rismikið og enn má sjá að nýja leiðtogateymið hjá sósíaldemókrötunum hefur ákveðið að fara varfærnislega af stað og treysta því að sígandi lukka er best.

11.4.2012

SF bara fyrir karla í vinnugöllum?

Það er ekki alveg út í loftið að halda því fram að það versta sem hent getur vinstri-sósíalíska flokka er að komast til áhrifa í ríkisstjórn.  Kannski heldur sú fullyrðing heldur ekki alveg en hún á þó alla vega við bæði heimilislífið innan Vinstri grænna á Íslandi og Sosialistisk Folkeparti (SF) í Danmörku og raunar mætti tína fleiri dæmi til.

Vandi VG á Íslandi er klassískur vandi flokka sem byggja á sterkri hugmyndafræði sem reynist síðan erfitt að hleypa í fulla framkvæmd í samvinnu við aðra og við það myndast eins konar ,,raunhyggjuarmur“ sem reynir þá að spila kalt út frá stöðunni og svo ,,hugsjónaarmurinn“ sem lítur á öll frávik frá hugsjónum flokksins sem svik.

SF í Danmörku stendur þó frammi fyrir dálítið öðrum vanda, þó hann sé vissulega svipaðs eðlis. SF undir forystu Villys Søvndals er einfaldlega sakaður um að hafa gjörsamlega horfið í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann tekur þátt í. Flokkurinn hafi varla komið nokkrum stefnumálum sínum í gegn og ekki sé að sjá á verkum utanríkisráðherrans Villy Søvndal að hann sé sammála stefnu formanns SF, Villys Søvndals, að nokkru leyti. Alltaf komi síðan forysta SF fram eftir að hafa bakkað með allt sitt og reyni að presentera framlag sitt til sameiginlegrar niðurstöðu sem annað hvort sigur eða alla vega varnarsigur.

Fylgið hefur hrunið af SF og formaðurinn Villy Søvndal, sem áður feykti flokk sínum í hæstu hæðir í skoðanakönnunum með eigin leiðtogahæfni (þá var talað um ,,Søvndal-effekten“) þykir nú jafnvel orðinn dragbítur á flokknum.

Um næstu helgi verður landsfundur flokksins haldinn og slæm staða flokksins hefur kallað á mikinn titring fyrir þann fund. Ekki er talið að formaðurinn sjálfur sé í fallhættu en þó er farið að tala um að það sé spurning um hvenær, en ekki hvort, hann þarf að stíga til hliðar.

Barátta fylkinganna með og gegn formanninum mun frekar birtast í varaformannskosningunni. Lesa meira

29.3.2012

Borgin með augum hvers og eins

Sænski sjónvarpsþátturinn Uppdrag granskning byggir á rannsóknarblaðamennsku og stendur sig oft ansi vel í því hlutverki. Í gær var kastljósinu beint að Malmö í tilefni þeirra morða sem framin hafa verið í borginni á undanförnum misserum og enn festa í sessi ímyndina um borgina sem glæpaborg Svíþjóðar.

Hver sagði sína sögu. Upplifun íbúanna var allt frá því að halda því fram að ástandið væri ekki hótinu skárra en í Írak til þess að fólk tjáði sig sem var orðið þreytt á því að heyra fólk utan frá, sem aldrei kæmi til Malmö, útmála borgina sem krimmabæli þegar staðreyndin væri sú að borgin væri ósköp venjuleg borg þar sem fólk lifði sínu daglega lífi í friði og ró, líkt og alls staðar annars staðar.

Það sem kannski var athyglisverðast í þættinum var það að Malmö er alls ekkert mesta glæpaborg Svíþjóðar. Allir stóru sænsku fjölmiðlarnir í Stokkhólmi sem halda þeirri mynd á lofti ættu nefnilega frekar að líta niður í eigið húsport. Tölfræðin sem leidd var fram sýndi nefnilega að glæpaborg númer eitt í Svíþjóð er Stokkhólmur. Meira að segja með nokkrum yfirburðum. Lesa meira